föstudagur, 22. ágúst 2003

Algjör hársbreidd og taka tvö

Skólasetning var í MR í dag. Ég mætti. Sá nýja bekkinn sem er þó í raun gamli bekkurinn, þ.e. ég er í fjórða R annað árið í röð. Það er stemning. Kona hringdi í Suigurð G. Tómasson á Útvarpi sögu um daginn og sagði "algjör hársbreidd". Hún var rugluð. Hvalveiðar hafnar við Ísland á ný. Ég er alfarið hlynntur hvalveiðum. Þvílíkur lúxus að hafa fallið á önn. Nánast engin bókakaup. Ég verð hvorki í tölvufræði né dönsku. Þannig að það verður ekkert "elsku Þyrí". Ég er nú bara aldeilis hræddur um ekki. Verklegri efnafræði sleppi ég líka. Þetta verður líklega bara létt og löðurmannlegt verk, fjórði bekkur í annað sinn.

Sorgarfréttir dagsins komu í Dómkirkjunni við skólasetninguna. Skarphéðinn Pálmason stærðfræðikennari til "ég veit ekki hvað" margra ára lætur nú af störfum eftir dygga þjónustu við skólann í áraraðir. Haldinn var vænn pistill um störf hans og frama í MR og má geta þess að það var eiginlega það eina sem ég hlustaði á í kirkjunni. Annað sem sagt var í kirkjunni lét ég sem vind um eyru þjóta enda eru þessar skólasetningarræður alltaf eins eða mjög keimlíkar. Svo þegar minnst var á Konunginn, þá lagði ég aldeilis við hlustir. Hans verður minnst með ekka og trega og öllum pakkanum.

Svo komu líka gleðifréttir. Arnbjörn Jóhannesson íslenskukennari snýr aftur eftir eins árs námsleyfi sprækur sem aldrei fyrr. Hann mun einmitt kenna mínum bekk. Í heildina leist mér bara nokuð vel á kennarana mína þetta árið. Nauðsynlegt að hafa góða kennara.

Svo kom Hannes portner að máli við okkur og skaut inn nokkrum bröndurum eins og honum einum er lagið. Hann hefur sjálfsagt verið að undirbúa slatta af smellnum bröndurum í sumar til að kasta fram núna í vetur. Kennararnir hafa sjálfsagt líka fengið innblástur í sumar og bætt við brandarabankann. Það mætti einhver kennari mér og Pjakk á göngunum og gaukaði að okkur einum brandara í teilefni af því að við vorum á stuttbuxum: "Hvað, eruð þið enn þá úti á Krít?". Við ákváðum að segja henni ekkert að við hefðum ekki verið í útskriftarferð í sumar til að eyðileggja ekki fyrir henni brandarann. En þessi var mun síðri en Portnersbrandararnir, sem voru vel ígrundaðir að venju.