sunnudagur, 10. ágúst 2003

Bruce Almighty og ruglaði karlinn

Á föstudagskvöld fór ég á myndina Bruce Almighty í Smárabíói. Fyrirfram bjóst ég við að myndin yrði rassgat og viðurstyggð því ég hafði heyrt slíka dóma úr öllum áttum. Einhverra hluta vegna ákvað ég samt að fara á hana. Myndin var töluvert betri en ég bjóst við. Skemmtilegar pælingar komu fyrir og hlegið var að vitleysunni þó nokkuð oft. Annars bar það helst til tíðinda að tvö hlé voru í þessari sýningu myndarinnar. Í ljós kom að seinna hléð átti sér eðlilega skýringu. Spólan hafði flækst og því varð nokkurra mínútna seinkun. Ég fékk ágætis bisnisshugmynd út frá þessu. Ég gæti opnað nýtt bíó og haft alltaf tvö hlé á myndum og látið eins og spólan hefði flækst eða það hefði kviknað í eða eitthvað. Svo gæti ég sagt á eftir: "...en það er tilboð á nammi núna!" og grætt þannig mun meira en ella á sauðheimskum bíógestum. En nú er ég búinn að opinbera þessa hugmynd svo fólk getur verið vart um sig ef ég hrindi henni í framkvæmd.

Síðasti vinnudagurinn með vinnuhópnum var á föstudaginn. Ég á samt eina viku eftir í vinnu en þá verður líklega bara afgangsfólkið sameinað í einn hóp. En þessi vinnudagur var geysiflippaður og upplífgandi. Gamli ruglaði karlinn (sem ég hef skrifað um einhvern tíma áður í sumar) kom og skemmti okkur þegar við vorum að vinna í Bökkunum. Nú fræddi hann okkur um vísitölustráin. Hann sagði okkur líka frá vísitölubrauðinu og rúsínunum sem hann var að fara að kaupa á tuttuguogfimmþúsund kall. Við spurðum hann hvort það væri ekki ansi mikill peningur fyrir eitt skitið brauð og rúsínur. "Nei, ekki fyrir vísitölubrauð!". Svo benti hann á mig og Elvar og sagði einhverjum stelpum sem voru að vinna þarna við arfareytingu að ef grasið væri svona eins og hárið á hausnum á okkur væri það nógu vel slegið: "Burstaklipptir menn!". Einnig vildi hann kvarta yfir undirgöngum á einum stað í Breiðholtinu. Svo sagði hann okkur frá Baldri Snæland og Grími á Vestfjörðum, pabba Ólafs Ragnars forseta. Hann fór síðan í u.þ.b tíu mínútur, kom síðan til baka með brauð í poka (vísitölubrauðið væntanlega). Allt í einu reif hann upp brauðpokann og reif gat á hann og sturtaði nokkrum brauðsneiðum á grasið. Það var mjög fyndið. Þetta var að sögn til að fóðra fuglana. Maðurinn virtist vera mikill dýravinur. En hann hafði skoðanir á ýmsum þjóðmálum, m.a. því hvernig Ingibjörg Sólrún yfirgaf borgina. Það er alveg ljóst að ef þessi maður býður sig fram á þing mun ég kjósa hann þrátt fyrir að hann búi í röri í Elliðaárdalnum að eigin sögn. Ég vil líka tvímælalaust að þessi maður fái sinn sjónvarpsþátt í Ríkissjónvarpinu. Hann gæti t.d. tekið við þætti Gísla Marteins. Hann gæti síðan fengið viðmælendur eins og Hannes Hólmstein, Völu Matt og Kristján Jóhannsson en þau fengju voðalega lítið að segja og hann væri bara að fræða þau um vísitölustráin og Grím á Vestfjörðum og svoleiðis. Ég held að slíkur þáttur gæti hiklaust farið í 95% áhorf. Það er a.m.k. gefið að ég mundi ekki missa af honum. Ég gæfi mikið fyrir að sjá hvernig þessi maður er þegar hann er fullur.

Þrátt fyrir að maður þessi sé ruglaður er ótrúlegt hvað hann veit mikið um þjóðmál og sögu og slíkt.

Ruglaða karlinn á þing 2007!