þriðjudagur, 5. ágúst 2003

Gamlir kartöflugarðar heima

Enn á ný er Árni nokkur Johnsen kominn í fréttirnar. Ég hélt að álit mitt á þeim manni gæti ekki minnkað mikið en annað kom á daginn. Að sjálfsögðu á hann að taka út sína refsingu eins og annað fólk sem brotið hefur af sér. Lögin eru alveg skýr. Ef Árni hefði fengið leyfi til að syngja sinn brekkusöng, hefðu þá ekki aðrir fangar átt að fá frí líka þessa helgi? Þeir gætu notað svipuð rök og Árni gerir, eins og: "Ég hef nú farið í svallveislu í Atlavík um verslunarmannahelgi síðustu 20 ár, ætlið þið að banna mér það núna bara af því að ég sit inni? Ég er mjög vinsæll hjá hátíðargestum í Atlavík. Ég spila oft á banjó og syng fyrir þá". Hvaða máli skiptir það að hefð sé að Árni spili þennan brekkusöng? Ef honum er svona annt um brekkusönginn gat hann alveg sleppt því að brjóta af sér. Og svo kemur eitthvað skammarbréf frá Árna með þyrlu á þjóðhátíð þar sem hann segir þá sem stóðu í vegi fyrir honum "fyrirlíta fólk og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera lífið leiðinlegt" og fleira í þeim dúr. Þetta var síðan lesið upp og allur pakkinn var á kostnað þjóðhátíðar. Ekki hefði ég viljað borga mig inn á þjóðhátíð vitandi að hluti af þeim peningum færu í þyrlu með arfavitlausu skammarbréfi frá Árna. Ég heyrði þátt á Útvarpi sögu í dag þar sem rætt var um þetta og þar skiptist fólk alveg í tvo hópa eftir því hvort það vildi leyfi fyrir Johnsen eður ei. Þeir sem vildu að karlinn hefði fengið leyfi voru á því að þetta væri órjúfanleg hefð og slíkt. Það bara skiptir engu máli í þessu, maðurinn á að afplána sína refsingu. Heimurinn ferst ekki þótt Johnsen spili ekki á þjóðhátíð. Það kemur maður í manns stað eins og fólk sá. Róbert Marshall spilaði og virtist fólk almennt sátt við það.