mánudagur, 24. janúar 2005

Lífsleikni - Draumastarfið

Um daginn var hreinsað til á gömlu tölvunni og flutt yfir á þá nýju. Fannst þá ræða sem ég flutti í lífsleikni í 3.bekk í MR. óttalega vafasamt. Var hún svona:

"Draumastarfið

Mig hefur alltaf dreymt um að verða kokkur. Það sem heillar mig við kokksstarfið er einkum það að ég held að maður þurfi ekki mikið að hugsa í því starfi. Það þarf engar djúpar pælingar. Maður er bara í góðu glensi að malla eitthvað á pönnu eða í potti, og getur farið eftir uppskriftum eins og maður vill, og mestu áhyggjurnar eru þær að maður brenni eitthvað við. Helsta fyrirmynd mín sem kokkur er að sjálfsögðu sjónvarpskokkurinn mikli, Siggi Hall, sem virkar alltaf eins og hann sé fullur. Enda er hann það örugglega. Maður sér hann fyrir sér, vera að elda eftir einhverri uppskrift. Svo stendur í uppskriftinni: ?bætið við koníaki eftir smekk?. Þá tekur hann fram stóra koníaksflösku og hellir nokkrum dropum á pönnuna, og svolgrar svo afganginum í sjálfan sig.

Starfið hentar mér vel af því að ég er góður í að sneiða sveppi. Starfið gefur góða tekjumöguleika ef maður stendur sig vel og vinnur á góðum veitingastað.

Starfið hefur gríðarlegt gildi fyrir þjóðina, þegar hún vill losna við að elda og borða góðan mat. Hinsvegar fylgja nokkrir ókostir starfinu, og þá aðallega vondur vinnutími, þar sem mest er að gera á kvöldin og um helgar. Svo geta verið gestir á veitingastaðnum, sem eru sínöldrandi af því að þeir hafi beðið 2 klukkutíma eftir matnum sínum (sem gerist stundum þegar kokkurinn er búinn með nokkrar koníaksflöskur), eða af því það sé fluga í súpunni þeirra, og þeir heimti að fá endurgreitt. Þá er best að láta þjóninn henda þeim út.

Nú vona ég að ég sé búinn að sannfæra ykkur um ágæti þess að vera kokkur, og nú ætlið þið öll að verða kokkar."


Gaman að gera svona copy-paste færslu. Kannski að ég fari að henda inn gömlum söguverkefnum og líffræði og slíku. Þá þarf ekkert að hafa fyrir þessu.