mánudagur, 10. janúar 2005

Munkur á nýju ári

Var að skoða bankareikningsyfirlitið sem alltaf kemur með póstinum um áramót. Sá þar að ég hef eytt 70.000 síðan 1. október og það sem meira er, ég geri mér enga grein fyrir í hvað þetta hefur farið. Jú, ætli það sé ekki skyndibiti, bíó, fyllerí (sem hefur þó verið mjög lítið um í vetur). Já, svo auðvitað heimskulegasta fjárfesting ársins: Batterí fyrir nánast úrelta video-vél sem kostaði 10.000. Sannkallað neyslubrjálæði þar á ferð.

Menn sem ekki vinna með skóla hafa alls ekki efni á svona eyðslusiðum.

Nú á nýju ári mun ég því temja mér meinlætalíferni munksins. Enginn óþarfa munaður. Hugsa um fátæku börnin í Afríku. Ekki fara þau í bíó.

Sparnaðaráætlun:
1.Næst þegar mig langar í bíó tek ég í staðinn bók og les eða horfi á sjónvarpið.

2.Nesti að heiman í skólann gegnir veigamiklu hlutverki í sparnaðaráætlun. Ef ég gleymi nesti verð ég bara að betla eða leita ætis í rusladöllum. Bankarnir eru líka alltaf með kaffi og með því.

3. Næst þegar mig langar á fyllerí betla ég sjúss hjá rónunum niðri í bæ.

4. Næst þegar mig langar í batterí í úrelta video-vél fæ ég mér bara göngutúr eða ég veit ekki hvað. Allavega spara 10.000.

Mottó nýs árs: "allt sem er ókeypis"