fimmtudagur, 21. júlí 2005

Lyfjasmökkun

Þar sem ég er lyfjafræðingssonur var ég dreginn áðan í lyfjafræðingamóttöku. Lyfjafræðingar komu saman prúðbúnir og veittu glænýju og brakandi fersku Lyfjafræðingatali viðtöku. Mér var að sjálfsögðu þrælað út á lúsarlaunum. Verk mitt var að deila út Lyfjafræðingatalinu við annan mann (ef einhver hefur áhuga kostar Lyfjafræðingatal 2005 12.000 kr. í lausasölu).

*Lyfjafræðingatalið var nú samt ekki ástæðan fyrir komu flestra lyfjafræðinganna. Þeir höfðu annað og betra í huga, nefnilega lyfjasmökkun. Lyfjasmökkun er fastur liður þegar lyfjafræðingar koma saman. Reyndar er "smökkun" fína orðið yfir það. Þegar klukkan slær átta eru flestir mættir og safnast í hóp inni í salnum. Veisluþjónusta Lyfjafræðinga er þá í óðaönn að hella marglitum töflum í skálar og mixtúrum í glös á veisluborðinu. Litlir gamlir karlar úr röðum lyfjafræðinga teygja sig upp á tær til að sjá betur og líta á töflurnar sem eru í öllum regnbogans litum. Greinilegan girndarglampa má lesa úr augunum á þeim og svo sleikja þeir aðeins út um enda búnir að bíða í marga mánuði eftir góðri lyfjasmökkun. Fljótlega gellur í veislustjóranum: "Gjöriði svo vel!" og þá hlaupa menn til og ná sér í pillubox og safna í það pillu hér og pillu þar. Þríhyrningsmerktu lyfin er fljót að klárast. Ef lagt er við hlustir heyrist í einhverjum:
"Namm! Mikið rosalega eru þessar rauðu góðar!" "Já, þetta er víst e-ð nýtt. Gárungarnir segja að þetta muni velta rítalíni út af markaðnum". "Ekki yrði ég hissa. Ég held að við ættum að ryðjast beint inn á Bandaríkjamarkað með þetta og taka hann með trompi."

Í öðru horni:
"Hva, Danni, á ekki að fá sér smá?"
Danni:"Nei, ég er á bíl"
"Láttu ekki svona, nokkrar pillur hafa nú aldrei drepið neinn"
Danni: "Nei, bara seinna."
"Kommon, þú færð þér nú aðeins með okkur strákunum"
Danni: "Jæja, gefðu mér þá nokkur stykki, bara rétt efst í boxið"

Margir gleyma að taka Lyfjafræðingatalið með sér þegar hugað er að heimför um kaffileytið daginn eftir. *

*Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að textinn er uppspuni ef frá er talin fyrsta efnisgrein.