laugardagur, 23. júlí 2005

Seasons in the Sun

Eftir djöfuls dumbunginn og norðangarrann sem lék um ljósa lokka fólks fyrr í sumar er sólin komin.

Í vetur þegar norðangaddur lemur rúðuna og menn sitja við matarborðið að bíða eftir kjötbollunum, kartöflumúsinni og brúnu sósunni með veðurfregnir Rásar 1 glymjandi í eyrunum, skyldu þeir muna að eitt sinn í júlí var sól, fólk hljóp berrassað og hlæjandi úti með sumargolunni um iðagræn engi og sólargeislarnir steiktu margan góðan drenginn. Einmitt þá, þegar veðurfréttakonan segir þurrlega "Garðskagaviti, norðaustan 10, skyggni ekkert" skyldu menn muna eftir sumrinu, taka hnífinn og gafalinn í höndina, nota þau til að tromma á diskinn á meðan vellingurinn bubblar á eldavélarhellunni, og syngja: "We had joy, we had fun, we had seasons in the sun..." og hafa gaman að.

En nóg um það, nú er ég farinn út aftur að eiga mitt season in the sun.