miðvikudagur, 27. júlí 2005

Vita konur lítið?

Ákvað að lesa Bakþanka Fréttablaðsins í dag. Oft sé ég mér ekki fært að lesa þá vegna þess að það er mjög oft tímasóun; skrifin eru svo oft argaþvarg og bull. En í dag var ekki svo. Nýr Bakþankaskrifari, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritaði sína fyrstu Bakþanka og voru þeir mjög góðir.
Þankarnir fjalla í stuttu máli um vantrú margs fólks á getu kvenna til að skrifa um stjórnmál og fleira þar sem karlar er í meirihluta. Tekur hún dæmi af sjálfri sér og kveðst oft hafa verið spurð á götum úti: "Hver hjálpar þér að skrifa greinar þínar?" Svarar hún því þá gjarnan til að enginn hafi hjálpað henni. Rekur fólk þá upp stór augu. HA?! Getur stelpuskjátan gert þetta alveg sjálf? Sigríður, þú veist að það er alveg ægilega ljótt að plata.
Lokaorð pistilsins eru: "Konum er allt fært!". Þarna verð ég að vísu að leiðrétta, það er: "Flest er fertugum fært!". Þrátt fyrir að ég sé margs vísari er nokkrum spurningum ósvarað, t.d.:
Hver hjálpaði henni að skrifa þessa Bakþanka? Kári Jónasson ritstjóri? Eða var það pabbi hennar?
Hver hjálpaði JK Rowling að skrifa Harry Potter?
Hver hjálpaði Vigdísi að verða forseti?