sunnudagur, 17. júlí 2005

Gagnrýni: Sin City

Fór á svokallaða Power-sýningu á Sin City í Smárabíói í gærkvöldi. Ekki fann ég neinn mun á henni og hefðbundinni sýningu svo ég hef ekki hugmynd um hvað þetta Power stendur fyrir (hlýtur að standa fyrir aukinn hljóðstyrk). En hvað með það?

Menn úr öllum áttum hafa lofað þessa mynd í hástert svo væntingar voru nokkuð miklar. Ekki byrjaði myndin vel. Bruce Willis kom reyndar aðeins við sögu sem gömul kempa sem bjargaði ungri stúlku úr klóm barnaníðings. Síðan kom kafli með brjáluðum þorskhaus sem vildi hefna fyrir morð á vændiskonu. Það var óttalega vitlaus kafli og of mikið af ofbeldi. Það sem þessi mynd hafði hins vegar fram yfir Kill Bill frá upphafi til enda var að þarna var söguþráður, ekki bara eilífar samhengislausar blóðsúthellingar. En ekki var mikið vit eða skemmtanagildi fyrir hlé. Útlit myndarinnar og kvikmyndataka er hins vegar mjög flott. Svart-hvítt með einum og einum hlut í lit. Í hléi hugsaði ég að þessi mynd gæti aldrei fengið hærra en 5,0 í einkunn.

Hefndarþyrst hórugengi kom m.a. við sögu eftir hlé. Þegar höndin á Benicio Del Toro fékk að fjúka (Del Toro hefur verið nokkuð hátt skrifaður hjá mér en hann er frekar slappur í þessari mynd) hélt ég að myndin væri að verða eins og Kill Bill kjaftæðið. Eftir smá kafla þar sem væntingarnar lækkuðu enn frekar mætir Bruce Willis aftur á svæðið í hlutverki gömlu kempunnar. Þar kemur vendipunkturinn. Myndin breytist skyndilega úr ofgnóttarofbeldisþvælu í hágæðaspennumynd þar sem Bruce nokkur Willis er allt í öllu. Guli gæinn sem Bruce þarf að kála er líka mjög góður. Minnti hann okkur einna helst á Megas í útliti. Lokakaflinn er alveg fjári magnaður og það er síst orðum aukið að Bruce Willis hafi mætt á svæðið og rifið helvítis myndina upp á rassgatinu svo hún fer úr fimmunni sem hún var í um hlé og upp í 8,0. Willis fær 10 fyrir sinn þátt.

Einkunn: 8,0