sunnudagur, 31. júlí 2005

Fylgir ábyrgð áfengi?

Siðapostular á vegum Vínbúðanna hafa nú fundið nýtt og brakandi slagorð: ÁFENGI FYLGIR ÁBYRGÐ. Nú fylgir nefnilega ábyrgð með hverri seldri áfengiseiningu í vínbúðunum. Ábyrgðin er á vökvaformi og bragðlaus svo hún spillir ekki réttu bragði áfengisins. Henni er einungis ætlað að veita þessa ábyrgðartilfinningu sem hefur vantað svo lengi með áfengi. Þeim mun meira sem menn drekka, þeim mun meiri ábyrgð öðlast þeir. Drafandi og þvoglumæltir skakklappar eru ekki lengur bara blindfullir, nú eru þeir líka stútfullir af ábyrgð: "Mmm, rosalegha err þetta drsasl gott. Gemmér meira, égh finn barra ábyrgðina hellast yfirhhh migg". Svo fara allir ábyrðarfullu fyllikútarnir og gera ábyrgðarfull verk. Þeir bjóðast til að gæta barna og þeir bjóðast til að fljúga flugvélum og þeir bjóðast til að boða boðskap Jesú: "Hann Jessú vahr skoo góður kahhdl. Hahnn saggði alltaff...". Frábær nýjung. Eykur ábyrgðina í heiminum og ekki var vanþörf á.

Ég veit hvað þeir eiga við og án efa vildu þeir vel en þetta er fáránlegt slagorð. Það hefur nefnilega lengi verið gallinn við áfengi að því fylgir ekki ábyrgð. Nær væri að brýna það fyrir fólki að gæta hófs með áfengi eða bara segja eins og Ragna Lára íþróttakennari í MR: "Komið svo jafnfalleg heim og þið fóruð að heiman" eða bara sleppa þessu alveg.