þriðjudagur, 11. október 2005

Klukk

Ásgeir og Már hafa "klukkað" mig. Hér kemur listinn:

1. Ég var þekktur fyrir mikla þrjósku á mínum yngri árum. Ef ég beit eitthvað í mig þá gilti það. Þrjóskan átti ýmis einkennileg birtingarform. T.d. var ég alltaf að gleyma útifötunum mínum í skólanum. En ég sótti þau aldrei. Þegar ég var búinn að týna góðum slatta af ullarsokkum, vettlingum, treflum og jafnvel úlpum fór mamma með mér í skólann að gá í óskilamuni. Hún sá þar hauga af mínum fötum og benti mér á en ég kannaðist ekki við þá muni og neitaði alfarið að hafa nokkurn tímann séð þá. Þá var sagt e-ð á þessa leið; Mamma: "Guðmundur minn, þetta eru bláu og hvítu ullarsokkarnir þínir" Ég: "Nei, ég hef aldrei séð þessa ullarsokka". Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mömmu til að tjónka við mig neitaði ég tengslum við þessi föt. Ég leit bara á þetta sem óskilgreinda óskilamuni. Mig minnir að þetta hafi endað þannig að mamma hafi tekið óskilamuni mína heim án míns samþykkis. Að sjálfsögðu neitaði ég að klæðast fötunum framar. Mamma gat bara klæðst þeim sjálf fyrst hún þurfti endilega að ná í þau. Einu sinni var ég hjá vini mínum og týndi einum sokki þar. Þegar mamma vinar míns kom með sokkinn og ætlaði að skila mér honum sagðist ég ekki eiga hann. Samt var ég berfættur á vinstri fæti og sokkurinn sem hún hélt á var sömu gerðar og sá sem ég klæddist á hægri fæti. En nei, ég átti sko ekkert í þessum sokki. Vinur minn hlaut að eiga hann. Það má segja að ég hafi verið nokkuð illviðráðanlegur í þessum efnum. Skýringar á þessari hegðun hef ég ekki.

2. Ég er í MR en útskrifast vonandi næsta vor. Ef ekki verð ég bara róni og ruslakarl. Þó kemur til greina að verða róni og ruslakarl þótt mér takist að útskrifast. Ekkert er útilokað.

3. Ég iðka bandý með Bandýmannafélaginu Viktor. Æfingar eru haldnar tvisvar í viku og sífellt fjölgar iðkendum.

4. Ég hef búið einn síðan í ágúst. Hinir fjölskyldumeðlimirnir þrír hafa flúið land og búa á víð og dreif um Danmörku. Þeir halda líklega að grasið sé grænna hinum megin.

5. Lengi vel ætlaði ég að verða kokkur en fátt bendir til þess eins og er.

úllen dúllen doff, ég klukka þá ufsana Guðmund P og Jósep.