laugardagur, 23. september 2006

Veðurklúbburinn á Dalvík

Þegar ég vaknaði í morgun var það fyrsta sem mér datt í hug Veðurklúbburinn á Dalvík. Á ég að túlka þetta sem fyrirboða? Um hvað þá? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mér dettur eitthvað undarlegt í hug þegar ég vakna.

Þegar ég fór að velta Veðurklúbbnum meira fyrir mér mundi ég ekki eftir að hafa séð spá frá þeim á þessu ári. En Klúbburinn er ekki hættur því þegar ég sló honum inn á Google fann ég sumarspá frá þeim. Ég veit ekkert hversu sannspáir þeir hafa verið til þessa.

Veðurklúbburinn á Dalvík hefur markaðsráðandi stöðu á sínu sviði. Enginn annar veðurklúbbur er starfræktur á landinu svo ég viti. Nú er spurning hvort pláss er fyrir annan slíkan klúbb á markaðnum. Tækju neytendur honum fagnandi? Spárnar þyrftu að vera hnitmiðaðar og markmið fyrirtækisins að vera skýr: að spá alltaf rétt. Fara þyrfti eftir ströngustu gæðastöðlum og hafa gæðaeftirlit. Markviss mannauðsstjórnun og fagmannleg vinnubrögð yrðu að vera aðalsmerki slíks klúbbs.

Ég hef hugsað mér að stofna nýjan veðurklúbb. Það ætla ég að gera eftir 40 ár. Þangað til ætla ég að kynna mér markaðinn betur svo fyrirtækið verði eins vel í stakk búið til að mæta samkeppni og auðið er. Með aðstoð dyggra manna verður unnin slík hernaðaráætlun að annað eins mun aldrei hafa sést.