þriðjudagur, 26. september 2006

Síðustu mánuðir Hallans

Hin fræga sjoppa, Hallinn, lokar í desember. Þessi sjoppa hefur í gegnum árin verið stór hluti af því að vera í MR. Fyrir nemendur (og suma starfsmenn) Menntaskólans mun brotthvarf Hallans skilja stórt skarð eftir sig. Þarna hafa þeir komið og fengið sitt peppó og kók ótal sinnum, sumir jafnvel daglega og mætt hlýlegu viðmóti Möggu (og að sjálfsögðu Kidda áður en hann lést fyrir nokkrum árum).

Þótt flestir kúnnar Hallans hafi verið MR-ingar á sjoppan einnig aðra fastakúnna. Sumir koma þangað sérstaklega til að spjalla við Möggu, enda skemmtileg og góð kona með mikinn húmor. Sumir fyrrverandi nemendur MR hafa líka oft sést í Hallanum.

Síðan ég byrjaði í Háskólanum í haust hef ég tvisvar litið inn í Hallann og heilsað upp á Möggu og fengið mér peppó. Ekki hafa þær heimsóknir svikið frekar en fyrri heimsóknir þangað og án vafa mun ég líta oftar inn áður en sjoppan lokar. Hvet ég aðra fyrrum MR-inga til að drífa sig þangað líka því nú fer hver að verða síðastur.