miðvikudagur, 6. september 2006

Kjarnorkukvendi

Sannkallað kjarnorkukvendi hélt til á einum skemmtistað borgarinnar um helgina. Á þessum stað vorum ég, Henrik og Einar staddir. Í einum sófa staðarins hafði kvendið helgað sér yfirráðasvæði.

Skemmtistaðurinn var frekar troðinn eins og gerist og ég stóð í smástund fastur við borð eitt sem var við yfirráðasvæði kvendisins. Stóð kvendið nú upp með látum og ýtti mér fólskulega úr vegi sínum, vatt það sér rakleiðis að pari sem sat í sófa á móti og lét nokkur högg dynja á manninum.

Leið nú nokkur stund, konan var aftur komin á sitt yfirráðasvæði og sat þar og deildi og drottnaði. Við drengirnir fengum okkur sæti í sófanum á móti yfirráðasvæði konunnar því sá sófi var nú laus. Við vissum ekki fyrr en konan var staðin upp, vatt sér að Einari, spurði hann hvað hann væri að gera með hálslút auk þess að spyrja hann til nafns, reif hann af honum klútinn og kýldi hann síðan af afli í bringuna. Fór síðan og settist aftur á yfirráðasvæðið sitt góða.

Niðurstaða:
Þessari konu ætti enginn að mæta:
  • í dimmu húsasundi.
  • í sjómann.
  • í reiptogi.
  • í glímu.
  • á skemmtistað.
  • úti á götu.
Hún gæti verið mikill fengur í landsliðið í knattspyrnu, hvort sem er karla- eða kvenna og jarðað andstæðinga sína. Að vísu væri hún vís til að jarða samherja líka.