miðvikudagur, 20. september 2006

Tá og göngur

Ég nenni ekki að lesa níundu blaðsíðu af fjörtíu sem settar voru fyrir morgundaginn í bókinni The Globalization of World Politics um realisma og liberalisma, þótt nokkuð skemmtilegar séu. Því hef ég kosið að blogga.

Helginni eyddi ég fyrir norðan. Þar smalaði ég fé fyrir Einar bónda. Óvenjuvel gekk að smala þetta árið og aldrei þurfti ég að þvælast upp á fjöll, hóla eða hæðir utan minnar smalaleiðar. Þetta mátti einkum þakka norðangolu sem blés í fangið á smölum jafnt sem kindum. Kindurnar skynjuðu að veturinn var á leiðinni og voru því fúsar að fara heim á bæi. Við smölunina var allur nýjasti fjarskiptabúnaður notaður, margir höfðu farsíma og allir höfðu talstöðvar, allt þráðlaust.

Önnur stóra táin á mér hefur ekki verið til stórátaka undanfarið. Í göngunum versnaði hún töluvert og var orðin svo bólgin að ég gat ekki farið í skó á samsvarandi fæti. Þegar læknirinn í fjölskyldunni sá tána sagði hann að þetta væri hrikalegt að sjá (mjög inngróin tánögl og stokkbólgin tá) , hringdi tvö símtöl og græjaði þannig tíma fyrir mig í aðgerð á mánudeginum eftir helgi. Þetta græjaði hann þrátt fyrir að skurðlæknirinn, félagi hans, væri fullbókaður þann dag og hann sjálfur sennilega líka. Skurðlæknirinn var tilbúinn að hliðra einhvern veginn til í planinu svo ég kæmist að.

Á mánudaginn fór ég í táaðgerðina. Fjölskyldulæknirinn (sem er svæfingalæknir) deyfði tána og skurðlæknirinn skar. Allt gekk ljómandi vel og í miðri aðgerð tilkynntu þeir mér að aðgerðin yrði "on the house". Það var alveg ótrúlega höfðinglegt og rausnarlegt boð, sem ég þáði. Þeir voru báðir að vinna aðeins lengur en þeir áttu að gera, út af mér, og splæstu síðan aðgerðinni. Þetta kallast fyrsta flokks þjónusta. Sæmi ég þá félaga hiklaust höfðingjanafnbót.

Táin er á góðum batavegi.