mánudagur, 25. september 2006

Útsendarinn

Þegar maður hringir út kannanir fyrir Gallup virðist óumflýjanlegt að einn og einn viðmælandi telur mann vera spillingarbarn, útsendara Satans, strengjabrúðu markaðsráðandi afla og boðbera öxulvelda hins illa. Enn fremur telja þeir mann fjandsamlegan lífríki jarðar. Enginn þeirra hefur reyndar orðað þetta nákvæmlega svona, en það má lesa milli línanna.

Sumir sjá spyrla Gallup sem gullið tækifæri til að losa út margra ára innbyrgða reiði og einstaka sinnum er ég feginn að ekki hefur enn verið þróuð tækni til að bíta fólk í gegnum símtól. Svona tryllt fólk er reyndar afar fátítt en eðli málsins samkvæmt eftirminnilegra en aðrir. Á síðustu vakt lenti ég t.d. í tveimur öskrandi ljónum, en það er óvenjumikið.

Þeir sem eru merktir með rauðu x-i í símaskránni verða gjarnan óðastir: "HVAR FÉKKSTU ÞETTA NÚMER!?" "Hmm, það poppaði upp á skjáinn hjá mér" "JÁ, ÉG ER MERKTUR MEÐ RAUÐU Í SKRÁNNI!". Svo "skemmtilega" vill til að rauða merkingin gildir aðeins gegn símasölu, ekki könnunum. Þegar við segjum fólki þetta sefast það oftast nokkuð og getur ekkert sagt, ágætt að hafa þó reglurnar með sér í slíkum tilfellum. Einn maður fór í mál gegn Gallup vegna þess að hann var merktur með rauðu en fékk hringingu frá fyrirtækinu. Gallup vann málið, enda með réttinn sín megin.