miðvikudagur, 25. júní 2003

Happdrætti Gatnamálastjóra

Það er glens og grín í vinnuni eins og við var að búast. Í dag vorum við að slá, raka og setja í poka. Í gær vorum við að slá, raka og setja í poka. Svo skemmtilega vill til að við vorum líka að þessu daginn þar áður og síðustu vikur. En Þótt þetta sé einhæf vinna er ekki þar með sagt að þetta séu tóm leiðindi. Skemmtileg atvik eiga sér stað á hverjum degi. Í dag voru t.d. litlir meðhjálparar sem hjálpuðu okkur að raka og setja í poka. Þetta voru fjórir drengir, svona 8 eða 9 ára. Þeir voru geysiduglegir. En þegar verkinu var lokið var komið að skuldadögum. Drengirnir vildu greiðslu fyrir störf sín. Einn sagði fimmhundruð kall. Það Þótti okkur ansi mikið, fyrir 20 mínútna vinnutíma. Fallist var á að hver og einn piltanna fengi tvöhundruð krónur.

Ekki má gleyma hinum skemmtilega lið vinnunnar, Matarhappdrættinu. Það gengur þannig fyrir sig að starfsmenn geta pantað mat í hádeginu með því að merkja númer á þeim rétti sem þeir vilja á þar til gert blað. Það er t.d. hægt að panta hamborgara eða pasta. En svo er það sem er svo spennandi við þetta að stundum fær maður ekki það sem maður pantar. Maður pantar kannski samloku en fær síðan ógeðfelldan gufusoðinn kjúklingaborgara. Bara að merkja inn númer, lukkunúmerið sitt, kannski átta (sem á að vera samloka) og þá fær maður e.t.v. rétt númer 5. Þetta er með eindæmum hressandi og lífgar upp á. Á morgun er ég að hugsa um að panta svikinn héra með smurolíu og spergilkáli og vona að ég fái hamborgara.Síðan get ég hlegið að aumingjanum sem fær svikna hérann, nema svo ólíklega vilji til að ég fái það sem ég pantaði, þá mun ég ekki hlæja. Eða sleppa því. Ég er hættur að panta mat þarna. Hann er oftast ekki upp á marga fiska. ÁG veitingar (sem framleiða matinn) fá hiklaust mínus í kladdann.