mánudagur, 2. júní 2003

Sturlun

Í gær vaknaði ég klukkan 8:00, (á sunnudegi) og eflaust segja ýmsir að það beri bersýnilega glögg merki um sturlun eða jafnvel geðveiki. Ástæðan fyrir því að ég vaknaði svona snemma var að ég var að fara út að skokka. Ég hef ekkert mér til málsbóta. Oft hef ég séð fólk úti að skokka og hlegið að því hvað þetta væru miklir vitleysingar, því fátt finnst mér glataðara en að skokka svona úti. Það er eitthvað svo endemis vitlaust. En að vakna svona snemma á sunnudagsmorgni er greinilega almesta klikkun sem til er, ég sá a.m.k. engan annan vitleysing skokkandi. Nú er ég hættur að æfa fótbolta. Eða ég er a.m.k. að hugsa um að hætta. Ég hef ekki mætt á æfingar í heilan mánuð út af prófum og því veseni sem þeim fylgir. Núna verð ég að læra fyrir endurtökuprófin. Það er líka nokkuð ljóst að ég nenni ekki að fara til Keflavíkur, Vestmannaeyja og Fáskrúðsfjarðar til þess að sitja á tréverkinu. Álit mitt á þjálfaranum kýs ég að fara ekki hátt með. Hann sagði oft síðasta sumar að ef menn mættu ekki á æfingar yrðu þeir bara á bekknum. Það var samt slatti af strákum sem mætti mjög illa en þeir fengu samt alltaf pláss í byrjunarliði þjálfarans. Svo voru nokkrir, m.a. ég sem mættum á hverja einustu æfingu en vorum samt alltaf á bekknum. Við komum kannski inn á síðustu tvær mínúturnar og fengum alls ekki tækifæri til að sanna okkur. Þannig að ef ég á að vera áfram hjá ÍR verða þeir að bjóða mér stöðu spilandi þjálfara. Það er alveg á kristaltæru.