Útgáfutónleikar Maus í IÐNÓ
Í gærkvöldi voru útgáfutónleikar vegna nýrrar breiðskífu Maus, Musick. Ég mætti að sjálfsögðu á staðinn og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þessi sveit er án alls vafa sú besta íslenska í dag. Það þarf ekkert að ræða það frekar. Þessir tónleikar voru alveg smellandi magnaðir. Þeir tóku öll lögin af nýja disknum í réttri röð og síðan gömul lög. Nýi diskurinn er bersýnilega algjör snilld og eiga Maus-piltar nú að stefna á að sigra heiminn. Þeir eiga fullt erindi í það. Sveitin hefur sinn sérstaka hljóm, sem er hreint ekki slæmt. Þó þótti mér titillagið Musick ekki koma alveg nógu vel út á tónleikunum og hljóðkerfið í húsinu var ekki alveg að höndla þetta á köflum. Skemmtilegt líka að sjá fólk upp í fertugt og fimmtugt þarna. Gaman að sjá gamla, harða Mausara. Augljóslega fólk með góðan smekk.
Í hnotskurn: Snilldartónleikar hjá bestu hljómsveit Íslands í dag. Einkunn: fjórar og hálf stjarna af fimm mögulegum. Það væru fimm stjörnur nema út af hljóðkerfi sem klikkaði aðeins á köflum. Einnig ber að geta þess að loftið þarna var mjög þungt og mátti auðveldlega skera það í sneiðar, engin loftræsting var til staðar. Þess má einnig geta að maðurinn sem stóð við hliðina á mér á tónleikunum var vitleysingur.
Lög eins og Life in a fishbowl, Musick, My favourite excuse, How far is too far? og fleiri á nýja disknum eru algjörlega í heimsklassa. Diskurinn er frábær.
Ég er vissulega orðinn enn harðari Mausari eftir tónleikana.
Svo eru menn að tala um Sigur Rós. Þeir eru vissulega að gera nýja hluti og með sinn sérstaka hljóm. En mér finnst lög þeirra allt of keimlík. En þeir sleppa svosum í litlum skömmtum.
föstudagur, 20. júní 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|