þriðjudagur, 2. september 2003

Nú fá hausar að fjúka

Ég fór í strætó í morgun niður í MR úr Seljahverfinu og þurfti að standa allan tímann. Það er síður en svo vinsælt. Strætóinn var vel pakkaður eins og hann hefur verið síðustu daga og margir stóðu því. Þetta er orðið það slæmt að bílstjórinn er farinn að segja fólki að koma inn að aftan svo það komist fyrir. Allir sem stóðu þurftu að stíga trylltan dans til að halda jafnvægi því bílstjórinn var versti ökuníðingur gaf alltaf vel í rétt áður en hann kom að ljósum og negldi svo niður á rauðu þannig að menn duttu hver um annan þveran. Ég veit ekki hvort það er svona leiðinlegt að vera strætóbílstjóri að þeir reyni að fá eitthvað kikk út úr því að keyra eins og vitleysingar. Ég bíð eftir því að Auðunn Blöndal á Popptíví komi inn í pakkaðann strætóinn og segi fólki að þetta sé falin myndavél og hafi bara verið grín í strætó síðustu daga. Ef það gerist verður hann kýldur í rot samstundis því troðningurinn í strætó er síður en svo eitthvað grín.

Mikið er um lélegar og jafnvel ógeðslegar auglýsingar þessa dagana. Sérstaklega má nefna Cheerios auglýsingar sem eru bara viðbjóður. Svo er það Íslandsbanki sem er búinn að hrinda af stað rándýrri auglýsingaherferð sem á að lokka námsmenn til þeirra. Flettarinn, Skemmtarinn, Vekjarinn o.s.frv. eru með því lélegra sem sést hefur í auglýsingum og það er ljóst að ég hef ekki viðskipti við Íslandsbanka á næstunni. Þessar auglýsingar eru ekkert nema fjáraustur og sóun í vitleysu. Ég veit a.m.k. ekki um neinn sem finnst þessar auglýsingar sniðugar eða skemmtilegar.

Einhver má kenna mér að laga enetation kommentakerfi eða finna kommentakerfi frá einhverri annarri síðu (Haloscan virkar ekki).