föstudagur, 22. apríl 2005

Hverjir eru gárungarnir?

Ekki líður sá dagur að fók vitni ekki í gárungana. Gárungarnir segja hitt og gárungarnir segja þetta. Gríðarlegt magn spakmæla er eignað þeim en aldrei fær maður að vita hverjir þessir gárungar eru. Ég ætla að taka dæmi af síðunni gunnarbirgisson.is:

"Mikil bylting hefur átt sér stað í endurbyggingu gömlu gatnanna í Kópavogi á kjörtímabilinu. Um mitt ár 1990 voru um 15 kílómetrar af gömlum götum, sem átti eftir að endurbyggja. Ömurlegt ástand þessara mála í stjórnartíð A-flokkanna þarf ekki að rekja fyrir Kópavogsbúum. Sízt þeim sem við þær hafa búið í áratugi. Loftlínur fyrir rafmagn og síma lufsuðust á gömlum tréstaurum milli forarpollanna á gangstéttarlausum troðningunum, svona eins og vörður yfir fjallvegi í gamla daga. Enda kölluðu gárungarnir þessa staura stundum einkennistré Kópavogs. Miklu fé var svo stöðugt ausið í viðhald á þessum vonlausu götum. A-flokkarnir hreinlega gáfust upp í þessum málaflokki og gekk hvorki né rak hjá þeim. Í kosningabaráttunni 1990 könnuðust þeir enda ekki við það að nokkur Kópavogsbúi hefði óskað eftir aðgerðum í þessum málum, svo mjög voru þeir uppteknir af að leysa daglegan fjárhagsvanda. Á þessu kjörtímabili hafa ellefu kílómetrar af þessum fimmtán verið endurbyggðir. Með sama áframhaldi gæti endurbyggingunni verið lokið um mitt næsta kjörtímabil."

Gunnar minnist ekki orði á það hverjir gárungarnir eru. Hann gerir ráð fyrir að lesandinn viti það, eins og svo margir.Eina sem ég get gert er að giska. Ég giska á að þessir kónar úr Prúðuleikurunum (ens. Muppet Show) séu gárungarnir.

Þeir sitja alla daga þarna uppi á svölunum og velta fyrir sér gangi mála í heiminum og senda síðan frá sér yfirlýsingar til fjölmiðla og að sjálfsögðu til múgsins á formi spakmæla.