föstudagur, 14. apríl 2006

Fávitaskapur á föstudeginum langa

Ég var boðinn í mat hjá frænku. Ég ók þangað glaður í bragði, fullur eftirvæntingar, hvað skyldi nú vera í matinn? Hreindýrskjet með súrsætri sveppasósu? Ofnbakaður grís með epli í kjaftinum og ilmandi baguette? Granatlax með sólþurrkuðum tómötum og paté? "Namm" hugsaði ég. Ég gleymdi mér við þessar vangaveltur og keyrði næstum því framhjá bensínstöðinni í Fossvoginum, en það rétt slapp fyrir horn.

Ég renndi að bensíntankinum og steig út. Þegar ég smeygði lyklinum í skrána á bensínlokinu rak ég upp heröskur svo glumdi í Esjunni. Ég fékk heiftarlegan straum af helvítis skrjóðnum og braut bíllykilinn þegar ég kipptist til. Tautandi nafn Skrattans og allra hans þúsund púka í hálfum hljóðum fór ég inn á bensínstöðina og borgaði bensínið. Síðan rétti ég fram kengboginn lykilinn og spurði eins og hálfviti hvort þeir kynnu að laga þetta. Þá fékk ég spjald neyðarþjónustunnar og karlinn á stöðinni sagðist ætla að athuga þetta og sótti töng og rétti lykilinn. En hann var þó þannig brotinn að ég hætti ekki á að setja hann í svissinn ef búturinn skyldi losna af þar.

Ég hringdi eins og hálfviti í frænku og sagðist hafa brotið lykilinn. Maður frænku kom og sótti mig og við keyrðum heim þar sem ég lúrði á aukalykli (sem er að vísu aðeins boginn. Drasl) og síðan aftur í Fossvoginn þar sem ég gat tekið bílinn og ók rakleiðis í matinn til frænku, hálftíma of seinn.

Þetta var lykillinn sem ekkert mátti koma fyrir samkvæmt móður minni. Ég er greinilega lyklaböðull því það var líka ég sem skekkti hinn lykilinn þannig að hann gengur ekki að bensíntankinum.