laugardagur, 15. apríl 2006

Sigtið

Sá þáttinn Sigtið á Skjá einum áðan. Hafði séð einn þátt úr þáttaröðinni áður sem fjallaði um ýmiss konar fælni. Þátturinn núna fjallaði um hönnun og var frábær.

Sigtinu stjórnar fjölmiðlamaðurinn Frímann Gunnarsson, sem leikinn er af Gunnari Hanssyni. Með Gunnari í þáttunum eru Halldór Gylfason og Friðrik Friðriksson. Enginn þessara þriggja hefur verið hátt skrifaður hjá mér fyrr en núna. Helsta fyrirmyndin að Frímanni þessum virðist vera Jón Ársæll, sem stjórnar Sjálfstæðu fólki.

Þessi fleðulegi froðusnakkur var ótrúlega svipaður Jóni í hegðun, atferli og framkomu, nema að hann var fyndnari. Kjaftavaðallinn sem átti að vera heimspekilegur var hrein snilld. Ég hló meira og minna allan þáttinn og fullyrði að þetta er besti gamanþáttur Íslands í langan tíma.

Nokkrir íslenskir sjónvarpsmenn mættu alveg taka til sín ádeiluna úr þessum þáttum.