þriðjudagur, 4. apríl 2006

Síðasti gangaslagur Menntaskólans?

Fyrir þá sem ekki vita:Gangaslagur MR er árlegur viðburður þar sem 6.bekkingar eiga að reyna að hringja bjöllunni inn í tíma og þrír neðri bekkirnir eiga að hindra það.

Efast um að nokkurn tímann hafi fleiri tekið þátt í gangaslagnum í MR en í dag. 6.bekkur er mun fjölmennari í ár en mörg ár á undan. Samt sem áður tóku margir strákar úr 6.bekk ekki þátt. Mun fleiri stelpur voru í árásarliðinu en áður.

Hernaðartaktíkin var sú að allir skyldu ryðjast í einu yfir vörnina og knýja þá þannig til að víkja. Þetta reyndist mjög ósniðug taktík. Þegar hersingin ruddist niður stigann og mætti yngri bekkingunum neðst voru sumir sem bara tróðust með straumnum, aðrir stukku upp á þvöguna. Slatti af 6.bekkingum tróðst undir, sumir lentu alveg niður í gólf þar sem traðkað var á þeim. Flestar stelpurnar sem voru framarlega tróðust strax undir, keðjan fór af stað og menn stráféllu. Aðrir virtust ekkert fatta hvað væri að gerast og héldu áfram að troðast ofan á hinum, nokkrir urðu bláir í framan vegna þess að þeir gátu ekki andað. Ein stelpan sem var troðin niður í gólf missti meðvitund. Þeir sem lentu undir öskruðu "STOPP!" (Nema þeir sem náðu ekki andanum) en furðu mikinn tíma tók samt að koma öllum í skilning um ástandið. Loks tókst að koma skikk á og voru allir reknir út í hasti. Þá var hugað að stelpunni sem missti meðvitund og náði hún fljótlega meðvitund aftur. Gangaslagurinn stóð því ekki nema 2-3 mínútur og hvorug fylking vann að þessu sinni.

Held að það hafi verið þrjú eða fjögur lög af föllnum 6.bekkingum sem voru troðnir niður, ég var í næstneðsta laginu. Mér var alveg hætt að vera sama þegar stigið var á hausinn á mér niðri í gólfi, ekki af fullum þunga sem betur fer. Kannski var þetta síðasti gangaslagurinn. Ef ekki var talað um að settar yrðu verulega hertar reglur í kjölfarið á þessari ringulreið.

Alveg er makalaust að fólk þurfi að hundsa fyrirmæli sem rektor gaf fyrir slaginn: bannað að nota lýsi. Að sjálfsögðu voru svartir sauðir sem mættu með lýsi og mökuðu á sig. Eftir slaginn heyrði ég einn strák segja að það hefði nú verið meiri aumingjaskapurinn í þessum stelpum að öskra, hann hefði nú sjálfur næstum troðist undir og alveg haldið kúlinu. Þvílíkur bjáni. Það var nú bara mesta mildi að enginn dó í þessum stutta slag, spurnig um 1/2 - 1 mínútu.