miðvikudagur, 25. desember 2002

Nú er ég því miður búinn að kveðja steinþursana sem voru hérna í bakgrunni en það var út af rugli á síðunni. (tæknin eitthvað að stríða mér).
Ég óska öllum gleðilegra jóla.

Ég fékk fjórar jólagjafir. Þær voru þessar:
1. Bókin LoveStar eftir Andra Snæ Magnason
2. Peysa
3. Litla lirfan ljóta á myndbandi
4. Rúmföt (satínrúmföt, gaman að því)
Ég fékk þrefalt fleiri gjafir þegar ég var yngri. Annars fór ég í hið árlega jólakaffi hjá ömmu og afa í dag þar sem allir ættingjarnir í föðurættinni voru saman komnir. Amma er alltaf að tala um að ég sé of horaður. Áðan í kaffinu var amma að spyrja mig hvað ég vildi að drekka og ég vildi bara vatn. Það fannst ömmu nú alls ekki ganga, nei ekki vatn á jólunum! "Það eru nú jól, Guðmundur minn!" sagði hún (Þá á maður að troða í sig sætindum og óhollustu) . Ég átti nú aldeilis að fá heitt súkkulaði í bolla eða jólablöndu eða eitthvað annað gos. Já, já. Svo er amma líka oft að tala um að það væri nú best ef hann frændi minn gæti nú gefið mér nokkur kíló (frændi minn er í þéttari kantinum) mér mundi nú ekkert veita af því. Svona eru þessar ömmur.
Svo er ég byrjaður að lesa bókina LoveStar og hún byrjar bara vel. Reyndar er þetta óttaleg vitleysa en það er fínt fyrir mig.
Svo þarf ég að horfa á Lirfuna. Hún er besta íslenska tölvuteiknimyndin. Hún er reyndar ein af bestu íslensku myndum sem ég hef séð.
Jólamaturinn var ekki jafn góður og venjulega. Kalkúnsfjandi. Hann er engin önd en hann er sosum ágætur, greyið. Öllum í fjölskyldunni þótti kalkúnninn betri eða jafngóður og önd nema mér. Ég mun samt sjá til þess að það verður önd á næsta ári.

Ég las frétt í dag um að fimmtán manns hefðu verið fluttir með sjúkrabíl á slysadeild vegna brjótssviða í nótt. Orsökin var að fólkið hafði étið yfir sig af feitu og söltu kjöti. (Manni bara dettur í hug lína úr einhverju jólalagi: "Svoooona eru jóóólin, svona eru jólin....")
Ég er búinn að ákveða að vera ekkert að éta eins og svín þessi jólin. Það endar alltaf illa.