fimmtudagur, 5. desember 2002

Það var ekki laust við að það væri sögupróf hjá fjórða bekk Menntaskólans í dag. Þetta próf var ansi skemmtilegt að því leyti að það var hægt að sleppa við allar spurningar úr Örlygsstaðabardaga, sem var ekki verra. Á prófinu voru líka 30 krossaspurningar. Einhvern veginn fannst mér ég vera kominn í þáttinn Viltu vinna milljón? þegar ég var að svara þessum krossaspurningum. Ég las þær í huganum eins og Þorsteinn J. hefði lesið þær. Svo merkti ég kannski við einhvern möguleikann og þá kom svona í hausnum á mér: "Þannig að þú ert að segja mér að....Sturla Sighvatsson hafi drepið Þórð kakala" (eins og Þorsteinn J. mundi orða það)
"Nei, ætli ég fái ekki bara að útiloka tvo möguleika" "Já, tökum burtu tvö röng svör og sjáum hvað stendur eftir". En það hurfu engir svarmöguleikar. (Þorsteinn J. var bara að ljúga! Nei, annars. Þetta var bara ímyndun hjá mér)
Þá var ég að hugsa um að spyrja salinn (en þá hefði mér örugglega bara verið hent út úr stofunni og ég hefði væntanlega fyrirgert rétti mínum til að þreyta fleiri próf á námsárinu). Og ekki gat ég hringt því að símar eru bannaðir í prófstofum. Þannig að söguprófið var í rauninni bara erfið útgáfa af Viltu vinna milljón? Ömurlegt, ég hafði ekki einu sinni möguleika á að fá einhvern pening fyrir að skjóta á rétt svör. Svona er nú skólinn ósanngjarn.