föstudagur, 27. desember 2002

Stöð eitt er eitthvað nýtt fyrirbæri sem er "alveg að fara í loftið". Já, þetta er allt að gerast hjá þeim. Fyrst auglýstu þeir að stöðin mundi hefja útsendingar í október. Það tókst greinilega ekki alveg en síðan þá hefur hún verið alveg bara rétt að fara í loftið mjög lengi. Síðasta útspilið hjá þessari mögnuðu stöð var að segja "dagskrá í desember" Já, þetta er allt að skella á góðir hálsar. NÚ byrja þeir. En nei, ég stillti á þessa stöð áðan og nú eru þeir hættir að auglýsa dagskrá í desember. Æ, þetta tefst víst aðeins. Fólk fyrirgefur það nú býst ég við. Nei, þetta hefur tafist aðeins núna síðan í október. Tæknin er sennilega eitthvað að stríða þeim. Eru þetta algjörir fávitar? Svo eru þeir bara að selja auglýsingar og læti. Ha, Daníel Edelstein sjóntækjafræðingur og eithhvað fasteignarugl. En þeir virðast vera hættir að auglýsa hjá þeim núna. Skrýtið. Svo fer þetta sjálfsagt bara á hausinn hjá þeim.

Omega er rosalega skemmtileg stöð. Sérstaklega þegar hann Guðlaugur Laufdal tekur upp gítarinn og fer að syngja. Það er himneskt. NEI. Svo er allltaf gaman að sjá þegar áhorfendur hafa sent inn bréf þar sem þeir vilja láta biðja fyrir einhverju eða þakka fyrir eitthvað. "Já, góði Guð þakka þér fyrir Omega" sögðu þau um daginn. Já, þetta vita nú ekki allir en hann Guð blessaður, hann stofnaði einmitt Omega á sínum sokkabandsárum. Stundum eru þessir predikarar bara að bregða sér í Guðslíki. Og sumt sem þeir segja þarna á stöðinni getur varla flokkast undir annað en guðlast. Það er líka gaman að sjá þennan Benny Hinn. Fólk kemur upp á svið til hans og hann læknar það af hinum ótrúlegustu kvillum. "Hún Jenna hefur verið í hjólastól í tíu ár, en nú ætlar Benny að lækna hana" og svo snertir Benny Hinn ennið á henni og hún líður út af. PAFF! Hún er læknuð og þarf aldrei framar að vera í hjólastól. Ég veit ekki með aðra en ég trúi alls ekki á kraftaverk Benny Hinn.
Ég vil samt sjá meira á Omega, eins og beinar útsendingar frá himnaríki og á gamlársdag þegar hinar stöðvarnar sýna ávarp forsætisráðherra gæti Omega bryddað upp á nýjung og sýnt ávarp Guðs þar sem Guð fengi einstakt tækifæri til að ávarpa þegna sína.

Fyrst var það Benny Hill en nú er það Benny hinn. Hvar endar þetta?