19 ára í dag
Þá er maður bara orðinn 19 ára. Síðasta ár mitt sem unglingur er runnið upp. Það verður að nýta gríðarlega vel og vandlega. Blæs ég til veislu það hið þriðja kvöld.Eins gott að ég er ekki orðinn fertugur. Þegar því aldurskeiði er náð hefur kímnigáfu hrakað gífurlega. Verða þá aukakíló og kaloríur sprenghlægilegar; „Ha? Súkkulaðikaka? Má maður við þessu?“ Svo hlæja allir hrossahlátri og feiksmælið er í botni. Þessi sami brandari ár eftir ár eftir ár þangað til maður verður svo gamall að hann kalkast út um annað eyrað og myndar hvítt duft á gólfinu. Farið hefur fé betra.
Og hvað fær maður yfir þrítugt í afmælisgjöf? Minnstu ekki á það, helvískur. Sokka, bindi og rakspíra. Kemur verulega á óvart í hvert skipti, og svo hafa börnin gott af þessu.
Svo kveikir maður á Létt FM, syngur með og sturtar í sig Herbalife eða hvað það mun heita þá. Íslenskar auglýsingar og Spaugstofan verða allt í einu aðhlátursefni. Og svo springur Solveig María.
Að lokum er hér frumsamið ljóð.
TILBÚIN FEGURÐ
Þú getur gifst konu
sem læknar hafa breytt.
Þú getur gifst konu
sem fyrir fegurð sína hefur greitt.
En mundu…
ósnert er hennar rót.
Börnin ykkar verða ljót.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Þakka þeim sem hlýddu, hinir mega eiga sig.
|