fimmtudagur, 29. janúar 2004

Síðustu forvöð

Sonur minn, yfirbloggarinn, benti mér á að nú væru að verða síðustu forvöð fyrir mig að nýta mér bloggboðið áður sem hann sendi mér snemma í janúar. Í byrjun febrúar verður nefnilega hætta á að blogg mitt drukkni í innibyrgðu bloggflóði hans. Þegar hann kemur úr bloggfríinu má reikna með að tjáningarþörfin verði gífurleg. Af næstu færslu á undan minni virðist reyndar sem það séu síðustu forvöð varðandi vel flest fyrir fólk á mínum aldri, eða eiginlega komið fram yfir síðustu forvöð, þar sem flestöllu skemmtilegu ljúki um tvítugt.
Neei, drengir mínir, - það er ekki þannig. Það er meira að segja líf eftir fertugt (ég átti kannski ekki að afhjúpa þetta strax, meira gaman að láta það koma á óvart).
Og til þess að minna á að það var líka líf í gamla daga, og að fólk á öllum aldri getur skemmt sér við fleira en megrunarkúra, auglýsingar eða Spaugstofuna (ég hef reyndar aldrei skilið skemmtanagildi megrunarkúra, - kannski eins gott), ætla ég að taka Guðmund höfuðbloggara með mér norður í land um helgina til að þjálfa hann og uppfræða í þorrablótshefðum.
Annars get ég ekki kvartað undan því að sonur minn hugsi lítið um móður/mæður. Undanfarið hefur hann verið svo upptekinn af hugsunum um mæður að hann hefur á köflum bara ekki komið upp orði (ef þið sem hlustuðuð á ræðukeppnina þar sem umræðuefnið var mæður hélduð að þagnirnar væru út af því að hann væri EKKERT að hugsa, þá leiðréttist það hér með). Viðeigandi hefði verið að fagna þátttöku drengsins í ræðukeppninni með því að blogga þann dag, en mér yfirsást sá möguleiki, enda mikið að gera í vinnunni. Ég held samt að ég hafi munað að kaupa inn þann dag, þannig að ásakanir KRAKKANS, dóttur minnar, neðar á síðunni um vanrækslusyndir varðandi kæliskápinn eru úr lausu lofti gripnar, - þá daga sem ég kaupi ekki inn er ástæðan venjulega sú að ég veit ekki hverju börnin óska eftir að nærast á þann daginn.