laugardagur, 17. janúar 2004

Idolpartí og hugmynd að nýjum gatnamótum

Gott kvöld. Ég er búinn að vera að lesa eðlisfræði í allan dag. Hressandi.

Í gær fór ég á Gettu betur og hélt svakalegt Idolpartí. Hápunktur dagsins var að sjálfsögðu þegar búdrýgindabuffið tróð sér inn á skjáinn óboðið á Idolfögnuði Grindavíkur, byrsti sig og skók svo glumdi í viðtækjum.

Sveppasúpan er aðeins að skána. Fyrsti þátturinn var fyrir neðan allar hellur og enn sumt ekkert fyndið. Auðunn Blöndal hefur ekki getið sér til glettni í mínum húsum. Atriðin með Sigurjóni Kjartanssyni eru langfyndnust og fagna ég óspart endurkomu Tvíhöfða.

Mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut? Gatnamótin fyrir framan blokk mína hafa mikið verið í umræðunni undanfarið vegna hárrar slysatíðni og gríðarlegs umferðarþunga sem þar er á álagstímum. Ég hef oft og tíðum heyrt árekstur og þotið út í glugga.

Leitað er að hugmyndum. Frumdrögum hönnunar og matsskýrslu skal skilað fyrir 13. desember 2004. Hvernig væri að finna upp eitthvað almennilegt án þess að fara yfir skynsamleg fjármörk? Fyrir gangandi vegfarendur gætu rennibrautir yfir göturnar bæði flýtt fyrir (gangbrautarljósin lögð niður) og svo hefðu krakkarnir gaman að þessu (það er fyrir öllu). Fyrir umferðina sjálfa er ég með ferska hugmynd. Umferðarljósunum yrði gjörbreytt þannig að litirnir yrðu fleiri. Þegar ákveðinn litur kæmi á ljósunum ættu allir vegfarendur í þeim sokkalit að keyra af stað. Svo ef vegfarandi man ekki sinn lit og kíkir á sokk sinn þarf hann að sitja hjá eina umferð. Ef ökumaður fer yfir á röngum lit springur hann í loft upp.

Ps. Þessar pop-up auglýsingar og ruslpóstur eru hálfvitar.