laugardagur, 1. júlí 2006

Laugardagur

Í dag var haldin risaafmælisveisla Landsbankans. Sem hluthafi mætti ég að sjálfsögðu niður í bæ, fékk mína sneið af kökunni, fékk pylsur og drykkjarföng í tonnatali. Björgólfur splæsti.

Svo lá leiðin á Glaumbar þar sem Portúgal og England mættust í frekar bragðdaufum leik í 8-liða úrslitum. Englendingar komu þó á óvart með sínum besta leik á mótinu til þessa. Besti maður Englendinga var Peter Crouch, sem kom inn á sem varamaður. Ég verð að lýsa mikilli furðu með gríðarlegan stuðning íslendinga við enska landsliðið. Ástæður þess eru nokkrar:
#1: Enska landsliðið hefur verið ákaflega leiðinlegt á að horfa í þessu heimsmeistaramóti og unnið leiki þrátt fyrir að vera lélegra liðið.
#2: Enska landsliðið hefur á að skipa of mörgum fíflum í byrjunarliði til þess að réttlætanlegt sé að halda með því. Nefni sérstaklega í því samhengi Wayne Rooney (vonarstjörnuna sjálfa), Rio Ferdinand og David Beckham.
#3: Væntingar Englendinga til liðsins á þessu móti voru út í hött. Heimsmeistaratitill var talinn næsta vís, að vísu að því gefnu að "stjarnan" Rooney spilaði. Hvað gerist svo? Hinn mikli Rooney eyðileggur leikinn fyrir sínum mönnum með þeirri yfirgengilegu heimsku að traðka viljandi á pungnum á Carvalho. Það þýddi bara eitt: beint út af með manninn og vonarstjarnan sjálf endaði á að verða blóraböggullinn, vegna þess að hann getur ekki hamið skap sitt.

Í vítakeppni höfðu Portúgalir Ricardo, Englendingar Robinson, ansi ójafnt það og England tapaði enn eina ferðina í vítakeppni á stórmóti. Portúgalir eru til alls vísir, spái þeim í úrslit gegn Þjóðverjum.

Mánaðamótin eru komin og nú hafa jafnvel fátækustu námsmenn skyndilega sprúðlandi fé milli handa. Auðvelt er að verða eyðsludraugnum að bráð við slíkar aðstæður og skildu menn því varast hann sérstaklega.