laugardagur, 15. júlí 2006

Sjónvarpsmarkaðurinn lifir

Ég verslaði alltaf í stórmörkuðunum af því að ég hélt að það væri svo ódýrt...

En nóg um það. Um daginn kveikti ég á sjónvarpinu og ætlaði að gá hvað væri í boði. Það hef ég ekki gert í sumar nema þegar HM var. Ég sá RÚV. Þar var e-ð glatað. Ég sá SkjáEinn. Þar var e-ð glatað. Ég sá Sirkus. Óþarfi að taka fram, en þar var auðvitað e-ð glatað, veit ekki einu sinni til hvers ég var að gá. Svo stillti ég á Omega. Þar var Sjónvarpsmarkaðurinn. Ég hélt að hann hefði horfið úr íslensku sjónvarpi fyrir fullt og allt, en nei, Omega heldur túnni við hann.

Í mótmælaskyni við lélega dagskrá sjónvarpsstöðva horfði ég á heila auglýsingu, sem fjallaði um magaæfingatæki. Nú er hægt að gera magaæfingar með lítilli fyrirhöfn, ekkert álag á háls og bak og fólk tekur bara 100 æfingar eins og að drekka vatn. Kviðurinn verður eins og þvottabretti. Tækið er mjög plássfrekt, en það kemur ekki að sök því ekkert mál er að brjóta það saman og stinga því undir rúm. Ég veit ekki hversu mörg plássfrek tæki frá Sjónvarpsmarkaðnum virka þannig að þau má brjóta saman og stinga undir rúm.

Svo slökkti ég á sjónvarpinu, mjög sáttur, eftir vel heppnuð mótmæli.