miðvikudagur, 19. júlí 2006

Matarkyns og drykkjarkyns

Samkvæmt svokölluðum EPG4-staðli má flokka mat og drykki í eftirfarandi flokka:
  • Viðbjóðsflokkur A
  • Viðbjóðsflokkur B
  • Viðbjóðsflokkur C (mildur viðbjóður),

þar sem viðbjóðsflokkur A geymir mestan viðbjóðinn, viðbjóðsflokkur B næstmestan og svo koll af kolli. Lítum nú á nokkrar vörur úr flokkunum þremur; í viðbjóðsflokki A eru t.d. ólívur, lundabaggar, sterkt áfengi, kæstur hákarl og gráðostur. Í viðbjóðsflokki B má finna vörur eins og hvítmygluost, kaffi, bjór, súrsaða hrútspunga og sterkkryddaðan mat. Flokkur C hefur að geyma áfengt gos o.fl. Öllum ætti að vera ljós hættan af flokki C þótt hann innihaldi minnstan viðbjóð flokkanna þriggja. Þar er gat í kerfinu, áfengi sem á að vera bragðvont smakkast eins og gos og jafnvel lítil börn þola bragðið vel. Þar hefur náttúruleg vörn áfengis gagnvart börnum vikið fyrir mildu og sætu bragði. Varúð!

Tökum nú dæmi af manni sem við köllum Kjartan. Fyrstu 13 ár lífs síns hefur Kjartan að mestu óskaddaða bragðlauka og þolir því ekki bragð af vörum úr flokki A og B. Næstu ár fer að halla á ógæfuhliðina og ungir og óreyndir bragðlaukar hans fara að skemmast (Sumir kalla slíkar skemmdir þroska en það er alrangt). Kjartan venur sig á að borða sterkkryddaðan mat og aðrar vörur úr viðbjóðsflokki B og þannig slæfir hann laukana dýrmætu. Þegar nær dregur tvítugu má greina veruleg hættumörk því Kjartan fer að gæða sér á vörum úr flokki A. Kjartan fær sér gráðost! Kjartan fær sér ólívur! Kjartan fær sér lundabagga! Nú er hann langt kominn með að eyðileggja bragðlauka sína og ekki verður aftur snúið. Kjartan er sokkinn ofan í kviksyndið og kemst ekki upp aftur.

Niðurstaða: Förum vel með bragðlaukana.