laugardagur, 22. júlí 2006

Fákeppni

Fákeppni ríkir á íslenskum markaði. Kaupmenn okra bæði á munaðarvörum og öðrum vörum. Þess vegna ber að fagna þegar ný fyrirtæki koma inn á markaðinn smáa og stuðla að samkeppni, með því að bjóða lægra verð en áður hefur tíðkast.

Mikil fákeppni (jafnvel verðsamráð) hefur ríkt á innlendum fjarskiptamarkaði þar til fyrir skömmu. Farsímafyrirtækið Sko haslaði sér völl á vetrarmánuðum. Fram að því höfðu fyrirtækin Síminn og Og Vodafone ráðið markaðnum. Verðmunur á símaþjónustu fyrirtækjanna tveggja var ekki sýnilegur. Þau hafa okrað svínslega á símtölum út fyrir eigin símkerfi, auk þess að rukka meira fyrir símtöl úr farsíma í heimasíma. Engin rök útskýra verðlagið á þeim þáttum.

Sé fyrirframgreidd símþjónusta fyrirtækjanna þriggja borin saman má sjá að Sko býður sms-sendingar á helmingi þess verðs sem hin fyrirtækin bjóða, eða 4,90 kr. Símtöl úr farsímum í þjónustu Sko kosta 14,90 sama hvert er hringt er í almenna símkerfinu innanlands. Til samanburðar má sjá verðlagningu hinna fyrirtækjanna á sömu þjónustu:

Síminn (farsímaþjónusta) - Frelsi
Símtöl í farsíma innan kerfis: 11 kr.
Símtöl í farsíma milli kerfa: 23 kr.
Símtöl í heimasíma: 23 kr.
SMS-textaskilaboð: 10 kr.

Og Vodafone (farsímaþjónusta) - Frelsi
Símtöl í farsíma innan kerfis: 10,90 kr.
Símtöl í farsíma milli kerfa: 23,10 kr
Símtöl í heimasíma: 22,60 kr.
SMS-textaskilaboð: 10,70 kr.

Fyrirtækin bjóða öll upp á þjónustuna Vinir, sem felur í sér að viðskiptavinir geta valið þann sem þeir hringja mest í hjá sama símfyrirtæki og hringt ókeypis í hann. Sko er frábrugðið keppinautum sínum tveimur að því leyti að öll þjónusta fer fram á netinu, til hagræðingar. Viðskiptavinir geta þó hringt í þjónustuver eða mætt á aðalskrifstofu félagsins, ef vandamál koma upp.

Niðurstaða: Sko fer með ótvíræðan sigur af hólmi í þessum einfalda verðsamanburði. Langlægsta verðið á farsímaþjónustu. Ég hef verið í viðskiptum við þá síðan í byrjun sumars og get fullyrt að inneignin er töluvert lengur að fara en þegar ég var hjá Símanum, þrátt fyrir að símnotkun mín á þessum tíma hafi verið meiri en mánuðina á undan.

Heimildir: