þriðjudagur, 23. desember 2003

Láki karlinn, lakkrístoppar og undarlegir draumar

Í dag fögnum við Láka, Þorláki biskupi eða eitthvað svoleiðis. Ég vaknaði við það í morgun að mamma bankaði á dyrnar og lamdi mig síðan með kústi og sagði "Farðu nú að baka, letinginn þinn!". Nei, ég er að plata. Mamma var samt búinn að segja mér að baka og nú á ég semsagt að fara að baka nýjustu sérgrein mína, lakkrístoppa. Það var eins og við manninn mælt og ég sit hérna við tölvuna með skræpótta svuntu sem saumaði einhvern tímann í handmenntatíma í Heiðarskóla. Mamma er bara í vinnunni en ég á að baka.

Um daginn dreymdi mig að sá hluti skólans sem nú er Fjósið væri orðinn að risastórri höll og í sama draumi datt ég um snjóskafl sem Hannes portner hafði gleymt að moka. Gaman að því. Í nótt dreymdi mig svo að ég var að labba í skólann. Hljómskálagarðurinn hafði teygst yfir mun stærra svæði en hann er á í raun. Ég labbaði inn í nýjan hluta Hljómskálagarðsins og þar var allt vaðandi eiturslöngum sem reyndu að glefsa í mig. Ég vona að mig dreymi skólann ekki næst.

Ég ætla að hætta skrifum hér út janúar 2004. Kannski skrifa gestaritarar á meðan.

Gleðileg jól.

sunnudagur, 21. desember 2003

Jól hjá Lalla Johns og klapp í bíó

Finlandia pela faldi ég niðri í bæ áður en ég fór á jólaballið. Hann var horfinn þegar ég ætlaði að sækja hann tveimur dögum síðar. Það mætti segja mér að Lalli Johns hafi verið fljótur að finna gripinn. Hann getur þá haldið jól, karlinn.

Ég fór á Return of the King í gærkvöldi, Versló/MR- forsýningu. Mikil eftirvænting var í lofti og heppni að enginn tróðst undir í atgangnum. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk klappar í bíó. Til hvers að klappa? Það er allt annað að klappa í leikhúsi, þannig eru leikararnir látnir vita að áhorfendur kunnu að meta sýninguna. Allar myndir sem ekki er klappað fyrir verða teknar úr bíó. "Þetta er greinilega ekkert vinsæl mynd, það klappaði enginn. Það þýðir ekkert að sýna hana lengur.". Kannski hringdu starfsmenn Laugarásbíós í leikstjórann, Peter Jackson: "Hi Peter, I'm calling from Laugarásbíó in Iceland. We just wanted to let you know that the people here who saw your film clapped their hands. Yes, your film is obviously popular here in Iceland. I think you should make more films."

"If you're happy and you know it, clap your hands!" eins og segir í söngnum. Ég held að þessi lína hljóti að vera mottó þessara vitleysinga, sem klappa í bíó.

Myndin var góð hvað sem öðru líður en ég leyfði mér ekki þann munað að klappa fyrir henni, þrátt fyrir það.

miðvikudagur, 17. desember 2003

Vantar miða á jólaball

Ég fékk ekki miða á jólaballið. Það hefur aldrei verið nein voðaleg stemning fyrir þessum jólaböllum fyrr en allt í einu núna. Það seldist upp. Einn Skólafélagsstjórnenda sagði mér í fyrradag að nóg af miðum yrði eftir daginn eftir, þ.e. í gær. En þegar ég ætlaði að kaupa var uppselt. Uppselt á jólaball MR . Ég hef sjaldan heyrt annað eins rugl.

Ef einhver getur reddað mér miða má hann endilega láta mig vita.

mánudagur, 15. desember 2003

Enn eitt drottningarviðtalið við Davíð

Af hverju í ósköpunum getur Davíð Oddsson aldrei mætt andstæðingum sínum í stjórnmálum í umræðuþáttum? Það er vægast sagt óþolandi. Hann var í Kastljósinu í kvöld. Þar talaði hann í landsföðurlegum umvöndunartón. Í þessum drottningarviðtölum hljómar alltaf eins og einhvers konar dáleiðsla fari fram. Viti menn, það virkar, Davíð hefur dáleitt þjóðina ár eftir ár.

Þar sem forsætisráðherra virðist ekki vilja mæta andstæðingum sínum í svona viðtölum er rosalega mikilvægt að umsjónarmenn þáttanna séu beinskeyttir og láti hann ekki komast upp með neitt múður. Hvað það varðar eru umsjónarmennirnir sem sáu um Kastljósið í kvöld andstæður. Kristján Kristjánsson klappaði Davíð á kollinn ef svo má að orði komast en Sigmar Guðmundsson lét karlinn svara fyrir sig og var langt um beinskeyttari en sá fyrrnefndi.

Davíð stóðst ekki mátið að skamma Sigmar fyrir að túlka sín orð. Þó virtist túlkun Sigmars vera nákvæmlega það sem fólst í orðum Davíðs en það vildi hann ekki viðurkenna. Davíð talaði um að honum þætti ósanngjarnt að hann mætti ekki lýsa sínum skoðunum (sbr. þegar hann lokaði reikningi sínum í Búnaðarbanka á dögunum og lét alþjóð vita og hvatti hana til að gera slíkt hið sama) eins og aðrir. Davíð virðist halda að hann geti flakkað milli þess eins og hann lystir að vera forsætisráðherrann Davíð og þess að vera hinn almenni borgari Davíð. Fyrirkomulagið er hins vegar ekki þannig. Davíð getur ekki tjáð sig opinberlega um pólitísk mál sem hinn almenni borgari Davíð. Hann er forsætisráðherra og verður að taka allri ábyrgð sem því fylgir.

Uppskrift dagsins

Efnafræðiprófsundirbúningur Guðmundar
Innihald:
1 og 1/2 bolli rækjur.
2 msk smjörlíki.
Efnafræðibók á stærð við símaskrá.
blaðabunki.
3 grófar brauðsneiðar.
5 bollar kók.

Aðferð:Hrærið öllu saman í graut og látið gerjast í hálfa klukkustund. Setjið síðan í ofninn og látið bakast í fjóra og hálfan til fimm klukkutíma. Verði ykkur að góðu!

laugardagur, 13. desember 2003

Pub quiz á Grandrokk

Ég prófaði pub quiz á Grandrokk í fyrsta sinn í gær. Spurningarnar voru fjári erfiðar. Þrjátíu stykki og mikill meirihluti um landafræði og það var ekki létt landafræði. M.a. var landafræðispurning þar sem svarið var Reykjanestá. Ég og samherji minn, Villi, náðum 10 réttum af 30 en sigurvegararnir 18 af 30.

Ég var að uppgötva hryllilega villu hjá mér á líffræðiprófinu. Það má eiginlega segja að ég hafi ruglað saman húð og laufblaði, því ég sagði að stafvefur og svampvefur væru í húð. Þeir munu hins vegar vera í laufblaði. Ég er létt hræddur um fall á líffræði, sem væri mjög skammarlegt. Ég var bara kominn með svo mikinn skóla- og prófleiða að ég nennti nánast ekkert að læra fyrir líffræðina. Líffræðibókin er líka hundleiðinleg, og enn leiðinlegri í annað skipti. En ég læt þetta ekki koma fyrir aftur og ætla að læra mjög vel fyrir efnafræðina á mánudag.

Eigendur Mama's Tacos eru ekki allir þar sem þeir eru séðir ef marka má Frikka. Ég hvet alla til að lesa þetta.

föstudagur, 12. desember 2003

Litli surtur - "svo mörg voru þau orð"

Ég fór í líffræðipróf í dag. Gekk sæmilega. Síðan fór ég ásamt Pjakki og Garcia á Alþingi og fylgdist með. Þar var einhver gaur sem blaðraði í tæpan klukkutíma og var alveg komið að því að forseti Alþingis, Halldór Blöndal, segði honum að þegja. Það hefði verið ærin ástæða til. Maðurinn röflaði og röflaði og vitnaði í Fréttablaðið fram og aftur. Þingfundur hófst á því að atkvæði voru greidd um ýmis frumvörp. Svo tilkynnti Blöndal að komið væri að umræðu um sjávarútvegsmál og þá fækkaði um næstum fimmtíu manns í salnum. Svo byrjaði karlinn að röfla og við skildum hvers vegna allir fóru. Hressandi. Þegar karlinn var rúmlega hálfnaður með ræðuna sagði hann "svo mörg voru þau orð" en ræðan var aldeilis ekki búin, hún var í korter í viðbót. Annars verð ég að játa það að Alþingi er alls ekki jafn leiðinlegt þegar maður sér það á staðnum eins og það virðist í Sjónvarpinu, en það var samt nokkuð leiðinlegt. Maður missir af hressilegum framíköllum og hinu og þessu smálegu sem maður tekur eftir á staðnum. Gunnar Birgisson sá sér meira að segja fært að mæta seint og um síðir.

Í spænskubók sem kennd er við MR er þýðing á einhverju spænsku orði: indjánastrákur, litli surtur.

Spurning hvort þar séu fordómar á ferð.

fimmtudagur, 11. desember 2003

Öryrki hlunnfarinn af Strætó bs.

Það er frétt í Fréttablaðinu í dag um öryrkja sem telur sig hafa verið hlunnfarinn um þúsund kall af Strætó bs. Maðurinn, sem greindist nýlega með alvarlegan sjúkdóm, framvísaði bráðabirgðaskírteini frá Tryggingastofnun er hann hugðist kaupa afsláttarmiða fyrir öryrkja í strætó. Honum var sagt að ekki væri hægt að veita afslátt út á skírteini án myndar. Maðurinn borgaði því fullt verð. Hann sendi forsvarsmönnum strætó tölvupóst og vildi fá sinn þúsundkall endurgreiddan þegar hann yrði kominn með skírteini með mynd. Einnig kemur fram að maðurinn telur sig sannanlega eiga rétt á endurgreiðslu en fær ekki. Hann segir það sýna helst hversu miklum fjárhagskröggum Strætó bs. sé í.

Er þetta ekki aðeins yfir strikið, að hlaupa í blöðin út af skitnum þúsundkalli, sem maðurinn telur sig eiga rétt á? Reglurnar um öryrkjamiða voru hertar vegna þess að algengt var að fólk svindlaði á þessu. Getur maðurinn ekki bara sætt sig við það. Sýnir þetta ekki bara hvað þessi maður er smásmugulegur? Kannski er hann sjálfur í svo miklum fjárhagskröggum að hann getur ekki séð af þúsundkalli.

Fréttablaðið hefði mátt sjá sóma sinn í því að birta ekki svona lélega frétt.

miðvikudagur, 10. desember 2003

Tónleikar Muse

Tónleikarnir voru fínir. Lítið súrefni og mikið af skrýtnu fólki.

Veðurfræðingagrín eins og það gerist best í Kastljósinu á RÚV

Í gær var besti Kastljósþáttur í manna minnum eins og maðurinn sagði. Þar voru saman komnir tveir leikandi hressir veðurfræðingar, þeir Haraldur Ólafsson, veðurfréttamaður á RÚV og Sigurður Þ. Ragnarsson eða Siggi stormur af Stöð 2. Fóru þeir með gamanmál eins og veðurfræðingum einum er lagið og veðurfræðihúmor fékk að njóta sín. Haraldur sagði t.d. hlæjandi frá því hvað hann segði við útlendinga sem hringdu í hann til að fá vitneskju um veður í Bláa lóninu 10. júní. Hann sagði að staðlað svar við þeirri spurningu væri "tíu stiga hiti og skúrir" og svo hlógu þeir félagarnir allhressilega að þessu frábæra veðurfræðigríni. Áhorfendur heima í stofu hafa ekki getað annað en haft gaman að þessu, slík snilld var þetta. Það er ekki spurning að það ætti að fá þessa menn í að halda veðpurfræðiuppistandsþætti í hverri viku. Besta Kastljós frá upphafi, segi og skrifa. Meira svona.

Hressandi Muse á eftir. Vonandi verður það ekki til þess að ég skíti upp á bak í frönskuprófinu á morgun.

þriðjudagur, 9. desember 2003

Kínverski bardagalistar- og veðmálaþátturinn Banzai

Það er þáttur á Skjá Einum þessa dagana sem heitir Banzai. Kínverjar sem telja sig mjög sniðuga sjá um þáttinn. Gallinn er sá að þeir eru ekkert sniðugir. Í þættinum er áhorfendum uppálagt að veðja á einhverja heimskulega hluti sem þáttastjórnendur skipuleggja. Þessi þáttur er eins og lélegt gamanefni frá fæðingarári mínu, 1985. Ég vona að fólk almennt hafi aldrei skemmt sig með því að horfa á þetta fjárans sorp.

Uss, ólesin stærðfræði

Uss, ólesin stæ. gekk verr en sú lesna. En ég hlýt nú samt að ná, ha? Ég byrjaði illa og stressaðist við það en ég vonast til að skella fimmu á þetta kvikindi. Allt undir því væri ótækt. Prófið var ekki alveg jafn svínslegt og jólaprófið í fyrra sem felldi 60% nemenda 4.bekkjar á jólum, sem er mikið.

mánudagur, 8. desember 2003

Lesið stærðfræðijólapróf

Í dag fór ég í lesið stærðfræðipróf. Ég rúllaði því inn um hægri nösina og snýtti því út um þá vinstri.

laugardagur, 6. desember 2003

Ummæli Guðna Ágústssonar

Ég er ekki frá því að Guðni Ágústsson ætti að segja af sér eftir vægast sagt fáránleg ummæli hans til öryrkja úr ræðustól á Alþingi.

fimmtudagur, 4. desember 2003

Skotárás

Það ætti að skjóta þetta lið sem er að skjóta upp flugeldum núna eða bara höggva af því hendur og fætur eða hálshöggva það með bitlausri öxi eða láta varða skóggang og útskúfa því ævilangt úr samfélaginu (afsakið svæsnar hugmyndir, ég var í söguprófi og dettur þess vegna ekkert í hug nema gamaldags refsingaraðferðir). Það eru ekki komin áramót. Það ætti endilega að finna sér eitthvað betra að gera, þetta lið, blogga eða læra fyrir próf eða drekka kakó. Hljómar vel.

Dönskupróf eru fyrir aumingja

þriðjudagur, 2. desember 2003

Ól

Ari sá sól. Lási á lás. Sísí saumar húfu. Lóa sá Ása í rólu. Haltu kjafti.

Nú er hafið upplestrarfrí hjá mér. Þess vegna ætla ég að taka mér frí í viku og vera fullur. Nei. Sögupróf er fyrsta prófið. Ég stefni á átta í meðaleinkunn núna. Kannski ekki raunhæft markmið en það er alveg sama.

mánudagur, 1. desember 2003

Sækið þetta lag

Sækið lagið Damage the Dark með Moonstyx. Annars eruð þið hrímþursar. Hægrismellið og veljið Save Target As...

Draumadeildin.is. Ég er með 3 lið þar, tvö sem ég uppfæri, eitt liðið heitir Danmörk og það er alveg í skítnum í 1184. sæti með 83 stig. Síðan er ég með lið sem heitir Ipraks og er í 531. sæti með 106 stig. Þriðja liðið er Leifur heppni sem er í 1346. sæti með 76 stig. Þetta voru gagnslausar upplýsingar dagsins. Ég þakka þeim sem hlýddu.