föstudagur, 12. desember 2003

Litli surtur - "svo mörg voru þau orð"

Ég fór í líffræðipróf í dag. Gekk sæmilega. Síðan fór ég ásamt Pjakki og Garcia á Alþingi og fylgdist með. Þar var einhver gaur sem blaðraði í tæpan klukkutíma og var alveg komið að því að forseti Alþingis, Halldór Blöndal, segði honum að þegja. Það hefði verið ærin ástæða til. Maðurinn röflaði og röflaði og vitnaði í Fréttablaðið fram og aftur. Þingfundur hófst á því að atkvæði voru greidd um ýmis frumvörp. Svo tilkynnti Blöndal að komið væri að umræðu um sjávarútvegsmál og þá fækkaði um næstum fimmtíu manns í salnum. Svo byrjaði karlinn að röfla og við skildum hvers vegna allir fóru. Hressandi. Þegar karlinn var rúmlega hálfnaður með ræðuna sagði hann "svo mörg voru þau orð" en ræðan var aldeilis ekki búin, hún var í korter í viðbót. Annars verð ég að játa það að Alþingi er alls ekki jafn leiðinlegt þegar maður sér það á staðnum eins og það virðist í Sjónvarpinu, en það var samt nokkuð leiðinlegt. Maður missir af hressilegum framíköllum og hinu og þessu smálegu sem maður tekur eftir á staðnum. Gunnar Birgisson sá sér meira að segja fært að mæta seint og um síðir.

Í spænskubók sem kennd er við MR er þýðing á einhverju spænsku orði: indjánastrákur, litli surtur.

Spurning hvort þar séu fordómar á ferð.