fimmtudagur, 11. desember 2003

Öryrki hlunnfarinn af Strætó bs.

Það er frétt í Fréttablaðinu í dag um öryrkja sem telur sig hafa verið hlunnfarinn um þúsund kall af Strætó bs. Maðurinn, sem greindist nýlega með alvarlegan sjúkdóm, framvísaði bráðabirgðaskírteini frá Tryggingastofnun er hann hugðist kaupa afsláttarmiða fyrir öryrkja í strætó. Honum var sagt að ekki væri hægt að veita afslátt út á skírteini án myndar. Maðurinn borgaði því fullt verð. Hann sendi forsvarsmönnum strætó tölvupóst og vildi fá sinn þúsundkall endurgreiddan þegar hann yrði kominn með skírteini með mynd. Einnig kemur fram að maðurinn telur sig sannanlega eiga rétt á endurgreiðslu en fær ekki. Hann segir það sýna helst hversu miklum fjárhagskröggum Strætó bs. sé í.

Er þetta ekki aðeins yfir strikið, að hlaupa í blöðin út af skitnum þúsundkalli, sem maðurinn telur sig eiga rétt á? Reglurnar um öryrkjamiða voru hertar vegna þess að algengt var að fólk svindlaði á þessu. Getur maðurinn ekki bara sætt sig við það. Sýnir þetta ekki bara hvað þessi maður er smásmugulegur? Kannski er hann sjálfur í svo miklum fjárhagskröggum að hann getur ekki séð af þúsundkalli.

Fréttablaðið hefði mátt sjá sóma sinn í því að birta ekki svona lélega frétt.