Enn eitt drottningarviðtalið við Davíð
Af hverju í ósköpunum getur Davíð Oddsson aldrei mætt andstæðingum sínum í stjórnmálum í umræðuþáttum? Það er vægast sagt óþolandi. Hann var í Kastljósinu í kvöld. Þar talaði hann í landsföðurlegum umvöndunartón. Í þessum drottningarviðtölum hljómar alltaf eins og einhvers konar dáleiðsla fari fram. Viti menn, það virkar, Davíð hefur dáleitt þjóðina ár eftir ár.Þar sem forsætisráðherra virðist ekki vilja mæta andstæðingum sínum í svona viðtölum er rosalega mikilvægt að umsjónarmenn þáttanna séu beinskeyttir og láti hann ekki komast upp með neitt múður. Hvað það varðar eru umsjónarmennirnir sem sáu um Kastljósið í kvöld andstæður. Kristján Kristjánsson klappaði Davíð á kollinn ef svo má að orði komast en Sigmar Guðmundsson lét karlinn svara fyrir sig og var langt um beinskeyttari en sá fyrrnefndi.
Davíð stóðst ekki mátið að skamma Sigmar fyrir að túlka sín orð. Þó virtist túlkun Sigmars vera nákvæmlega það sem fólst í orðum Davíðs en það vildi hann ekki viðurkenna. Davíð talaði um að honum þætti ósanngjarnt að hann mætti ekki lýsa sínum skoðunum (sbr. þegar hann lokaði reikningi sínum í Búnaðarbanka á dögunum og lét alþjóð vita og hvatti hana til að gera slíkt hið sama) eins og aðrir. Davíð virðist halda að hann geti flakkað milli þess eins og hann lystir að vera forsætisráðherrann Davíð og þess að vera hinn almenni borgari Davíð. Fyrirkomulagið er hins vegar ekki þannig. Davíð getur ekki tjáð sig opinberlega um pólitísk mál sem hinn almenni borgari Davíð. Hann er forsætisráðherra og verður að taka allri ábyrgð sem því fylgir.
|