þriðjudagur, 23. desember 2003

Láki karlinn, lakkrístoppar og undarlegir draumar

Í dag fögnum við Láka, Þorláki biskupi eða eitthvað svoleiðis. Ég vaknaði við það í morgun að mamma bankaði á dyrnar og lamdi mig síðan með kústi og sagði "Farðu nú að baka, letinginn þinn!". Nei, ég er að plata. Mamma var samt búinn að segja mér að baka og nú á ég semsagt að fara að baka nýjustu sérgrein mína, lakkrístoppa. Það var eins og við manninn mælt og ég sit hérna við tölvuna með skræpótta svuntu sem saumaði einhvern tímann í handmenntatíma í Heiðarskóla. Mamma er bara í vinnunni en ég á að baka.

Um daginn dreymdi mig að sá hluti skólans sem nú er Fjósið væri orðinn að risastórri höll og í sama draumi datt ég um snjóskafl sem Hannes portner hafði gleymt að moka. Gaman að því. Í nótt dreymdi mig svo að ég var að labba í skólann. Hljómskálagarðurinn hafði teygst yfir mun stærra svæði en hann er á í raun. Ég labbaði inn í nýjan hluta Hljómskálagarðsins og þar var allt vaðandi eiturslöngum sem reyndu að glefsa í mig. Ég vona að mig dreymi skólann ekki næst.

Ég ætla að hætta skrifum hér út janúar 2004. Kannski skrifa gestaritarar á meðan.

Gleðileg jól.