fimmtudagur, 31. mars 2005

QOTSA og draumur um skóla

Queens of the Stone Age eru konungar rokksins. Ekki kannski þeir einu en konungar samt sem áður. Sennilega verður næsti diskur í safnið nýútkominn diskur þeirra.

Mig dreymdi a.m.k. tvisvar í páskafríinu. Fyrri draumurinn var greinilega fráhvarfseinkenni frá skólanum. Draumurinn var þannig að bekkurinn minn sat í stofunni og næsti tími var efnafræði hjá Skarpó. Þegar hringdi birtist Skarpó galvaskur í dyrunum. Eitthvað var reyndar undarlegt við hann í þetta skiptið, hann var ekki eins og hann er vanur að vera. Hann var mjög mjóróma og kennskuhættirnir höfðu breyst. Reyndar var kennslan í þessum tíma fyrir neðan allar hellur. Hann fór að kenna um mól per flatarmálseiningu (hef ekki heyrt um það fyrr). Hann sagði m.a.: "Það er sama hvaða stærðir við höfum, hlutfallið er alltaf það sama" og síðan teiknaði hann á töfluna langar línur. Línurnar voru svo langar að hann varð að teikna út fyrir töfluna. Hann stökk upp með tússpennann til að teikna ofan við töfluna en þá vildi ekki betur til en svo að hann flækti tússpennan í loftinu og festist þar, hvernig sem það var hægt. Svo hékk hann þar fastur og til að losna varð hann að draga myndvarpatjaldið niður, sem honum tókst eftir japl, jaml og fuður. En abbababb allt í einu kom annar Skarphéðinn inn í stofuna og það var sá rétti. Hinn forðaði sér út skömmustulegur og hinum rétta Skarpó var ekki skemmt. Svo kom í ljós að eftirlíkingin var Óskar stærðfræðikennari. Skarphéðinn hafði beðið Óskar að leysa sig af í þessum tíma og Óskar hafði greinilega séð sér leik á borði að gera Skarpó að fífli með því að klæðast Skarpóbúningi láta eins og bjáni í tímanum. En ráðabruggið mistókst hjá honum, það komst upp um allt saman þegar Skarpó mætti sjálfur í lokin. Svo náði Skari alls ekki röddinni.

miðvikudagur, 30. mars 2005

Bútaður maður

Eitthvað var víst fjallað um mannabúta sem fundust á víð og dreif um Kaupmannahöfn í fréttum hér heima. Lappir. Hendur. Búkur. Afar ósmekklegur maður virðist hafa bútað annan niður um helgina og dreift um höfuðborg Danaveldis. Mikið var fjallað um málið í dönskum fjölmiðlum.

Ég las frétt um þennan ósmekklega atburð í danska blaðinu Urban. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina um bútana virðist hafa kappkostað að vera ósmekklegur eins og banamaður mannsins. Í fréttinni var nefnilega getið um tegundina á nærbuxum hins látna. Einnig var birt mynd af andliti líksins eins og lögreglan bað fjölmiðla um. Ég vona að lögreglan hafi ekki beðið fjölmiðla um að birta upplýsingar um nærbuxurnar og skil reyndar ekki hvernig blaðamaðurinn komst yfir þær upplýsingar eða hvað honum gekk til. Sá hluti fréttarinnar í blaðinu kom eins og álfur út úr hól. Ekki var skrifað um klæðaburð hins látna að öðru leyti. Það mátti helst túlka upplýsingarnar þannig að þeir sem þekktu manninn vissu allt um nærbuxur hans; "Já, Hans gengur alltaf í Haravelli nærbuxum þannig að þetta hlýtur að vera hann."

Eins og flestum þótti mér atburðurinn óhugnanlegur. Danmörk er greinilega brenglað land þannig að ég fór bara heim til Íslands aftur í gær. Er reyndar farinn að efast um að ég sé kominn heim eftir langa athugasemd Henriks við síðustu færslu.

þriðjudagur, 29. mars 2005

Leigubílstjórinn

Í morgun keyrði kona okkur systkinin og föðurinn til Álaborgar í leigubíl. Kona. Leigubíl. Það var skrýtið af því að ég hef ekki séð það áður. En hverjum er ekki...

Klukkan var 5:30 þegar við settumst í bílinn og eitt af því fyrsta sem konan hafði orð á var: "Solen er da endnu ikke kommet op hohohohoh! Det var da tidligt om morgenen!" eða á íslenskunni:
"Sólin er ekki ennþá komin upp hohohohoh! Það er naumast að þið eruð snemma á ferðinni!"

Mér var ekki hlátur í hug. Húmor minn er ekki orðinn nægilega þroskaður. Þetta er hlutur sem ég þarf að vinna í.

föstudagur, 25. mars 2005

  1. Bob Dylan - Hurricane.
  2. Efnafræði föytasta.
  3. Eðlisfræði raðtenging hliðtenging.
  4. Kjörbók í ensku lesin á dönsku: Our Man In Havana eftir Graham Greene (dan. Vor Mand i Havana).
  5. Áður var kjörbók í frönsku lesin í íslenskri þýðingu. Óáhugaverðasta franska bók sem til er. En hún var á íslensku. Það er plús.
  6. Óreiða.
  7. Hrikalegur skemmtiþáttur áðan á DR1. Ímyndið ykkur Gísla Martein með Halldór Ásgríms, Boga Ágústs og Valgerði Sverris í settinu syngjandi, klappandi og brosandi út fyrir. Á dönsku. Þar hafiði það.
  8. Göö.
  9. Ísvöfflur í pakka úr búðinni namm.
  10. Nirvana - Lithium.
  11. Nú á ég að fara að sofa.
  12. Skipulag síðar.

Nýjung

Pabbabloggið er víst það nýjasta. Svakaleg færsla um Fischer.

Fréttastofa Stöðvar 2 = grín

Hafi fréttastofa Stöðvar 2 notið einhvers trausts hjá þjóðinni hlýtur það að hafa farið fyrir lítið eftir aukafréttatíma þeirra í gær undir yfirskriftinni Fischer kemur heim.

Var að horfa á þetta á netinu og annan eins grínfréttaflutning hef ég ekki séð.

fimmtudagur, 24. mars 2005

Bjöllukúla í stað heila

Grannarnir eru frekar góðir hérna. Hægra megin býr hann Kalle, 70 ára, með konu sinni og vinstra megin býr Elenóra, 93 ára. Í morgun var Kalle úti og sagði "davs" (góðan daginn) við mig og pabba og spjallaði síðan um veðrið og garðverkin við pabba. Í dag var besta veður síðan við komum út og ég sat úti á verönd við nýja borðið og las í efnafræðibókinni.

Ekki er samt allt slétt og fellt. Það er nefnilega heilalaus hálfviti hérna nokkrum húsum frá. Í dag og í gær hefur hann montað sig af góðu græjunum sínum og góða drum 'n' bass disknum sínum. Hækkar í botn og svo heyri ég bara: "útiss atiss útiss atiss útiss atiss " dúndrandi bassann endalaust. Það sem er svo skemmtilegt við drum 'n' bass "tónlist" er að hún er eiginlega bara þetta: "útiss atiss útiss atiss útiss atiss". Dæmigert drum'n'bass lag hljómar svona:
"útiss atiss útiss atiss útiss atiss.....
10 sekúndna millikafli
útiss atiss útiss atiss útiss atiss..."

Vaknað kl. 10. Skál af morgunkorni. Inn í herbergi, kveikir á græjunum -uppáhalds drum'n'bass diskurinn þaninn-. Hækka svo nágrannarnir viti hvað maður er töff. Eftir 20 mín af sama skal skipt um disk, smá bið, síðan blússandi bassinn aftur. Töff. Keyrt í græjunum til hádegis. Hádegismatur. Aftur inn í herbergi. Það er svo mikil orka í þessari tónlist, hlustaðu! Bassi bassi bassi allan daginn.

Hef alltaf séð aðdáendur svona tónlistar fyrir mér sem heilalausa með bjöllukúlu í hausnum. Hrista hausinn í takt við bassann og bjöllukúlan dinglar með.

miðvikudagur, 23. mars 2005

Rúgbrauð og Þjóðverjar

Þjóðverjarnir reka matvöruverslanir hér í Danmörku sem heita Aldi. Það eru langódýrustu búðirnar í landinu. Rúgbrauð á 30 kr. Þetta kaupir maður bara af því að það er næstum gefið. Ég kann mjög vel að meta stefnu Þjóðverjanna að hundsa stórfyrirtækin Coca Cola og Kellogs. Í staðinn get ég keypt River Cola, beint úr ánni og Golden Rice kornflex beint af akrinum þegar ég fer í Aldi. Með þessari stefnu er unnt að halda verðinu niðri í rassgati.

Sumir Danir eru víst haldnir slíkri andúð á andskotans Þjóðverjunum að þeir versla ekki við Aldi. Mikil heimska að mínu mati. Þeir Þjóðverjar sem hafa orðið á vegi mínum í gegnum tíðina hafa reyndar ekki verið frábærir. En það eru örugglega til ágætir Þjóðverjar ef vel er að gáð. Jurgen Klinsmann var t.d. góður í fótbolta á árum áður.

þriðjudagur, 22. mars 2005

Guði ekki þóknanlegt

Sit hérna með Rynkeby morgenjuice og sötra. Menn sem drekka morgundjús að kvöldi eru að storka máttarvöldunum. Reikna með að guð ljósti mig fljótlega með sprota sínum.

Í dag fórum ég, Krakkinn og pabbi garmurinn í kaupstaðarferð til Álaborgar. Skröngluðum í strætó í klukkutíma til að komast í risaverslunina Bilka. Fokk, hún var stór. Pabbi fékk æðiskast og keypti garðhúsgögn og sessur í garðhúsgögnin og peysur og DVD/Video tæki og samt er ekki einu sinni nýtt kortatímabil. Svo hélt ég á sessunum og var eins og fáviti í strætó og pabbi hélt á DVD tækinu og Krakkinn hélt á pokum. Danir brutu þýsk egg við Bilka í dag til að mótmæla innfluttum þýskum salmonellueggjum.

Á leiðinni til baka sáum við hesta úti á túni í bláum peysum. Já, það er kalt í Danmörku þessa dagana, stundum frost.

Dönsk blöð eru rosalega stór. Ekkert A3 kjaftæði. Þessi blöð eru metri á breidd og metri á lengd og til að lesa þau þarf helst að kaupa nýtt borð. Pabbi er einmitt líka nýbúinn að kaupa nýtt borðstofuborð. Svo eru blöðin samsett úr a.m.k. fimm blöðum; Politiken Kultur, Politiken Erhverv, Politiken Hverdag og einhver andskotinn. Frekar vil ég Moggann með eitt aukablað á dag, jafnvel þótt það sé Viðskiptablað Moggans eða Úr verinu.

Svo ætla ég að horfa á Danmörk - Kazakstan í beinni á TV2 á laugardaginn.

sunnudagur, 20. mars 2005

Sveitamaður

Var að setja inn tengil á síðu sveitamanns, Gumma, sem er bróðir gamals félaga úr sveitinni. Maðurinn sá er mikill aðdáandi ítalska boltans og Juventus, sem ekki er gott afspurnar.

Einnig ætti kannski að nefna það að ég og drengurinn sá vorum oft saman í liði í fjögurra manna fótbolta í sveitinni og í mótliðinu voru Vésteinn og Skari. Hefð var fyrir því að við nafnar rústuðum fótboltaleikjunum með miklum mun. Mig minnir samt að Óskar og Vésteinn hafi unnið einu sinni (örugglega ekki oftar).

laugardagur, 19. mars 2005

Áfangastaður: Dronninglund

Vaknaði 04:45 í morgun.
  • Lagði af stað að Leifsstöð kl. 05:15. Tími: 45 mínútur.
  • Bið í Leifsstöð. Tími: 1 klst. og 30 mínútur.
  • Steig um borð vél Iceland Express kl. 07:30.
  • Flug til Kapmannahafnar. Tími: 2 klst. og 50 mínútur.
  • Bið á Kastrup flugvelli eftir lest. Tími: 50 mínútur.
  • Lestarferð frá Kastrup til Álaborgar. Ómetanlegt. Tími: 5 klst. og 30 mínútur.
  • Gengið á aðalstrætisvagnastöð Álaborgar. Bið þar. Tími: 1 klst.
  • Ferð í strætisvagni frá Álaborg til Dronninglund. Tími: 42 mínútur.
  • Gengið að húsi föður míns í Dronninglund. Tími: 5 mínútur.
  • Á leiðarenda var klukkan 19:15 að íslenskum tíma.

Samanlagður tími sem fór í ferðina: 14 klst.

Niðurstaða: Dronninglund er ekki í alfaraleið. Eins og sagt er á fáguðu máli er Dronninglund úti í rassgati.

Meira síðar. Næst á dagskrá: svefn.

föstudagur, 18. mars 2005

Er hálfviti en vill vel

Í máli fólks heyrist oft talað um einhvern sem vill vel. Dæmi: "Hún Gunna mín er nú ekki sú skemmtilegasta, en vill vel". Orðasambandið virðist vera notað til að taka fram að sá sem um er rætt sé ekki alslæmur (eða sýna fram á að enginn sé alslæmur). Hann er kannski aumingi og hálfviti, en vill vel og fær fyrir það ímyndaða stjörnu eða broskall fyrir viðleitni.

Þegar ég heyri orðasambandið vill vel veit ég strax að sá sem um er rætt hefur gert óafsakanleg mistök eða þá að hann er nautheimskur og hundleiðinlegur aumingi. Mér þykir þetta bjánaleg málnotkun. Hvers vegna er ekki að sama skapi talað um fólk sem vill illa, t.d.: "Dúddi er einn skemmtilegasti maður sem ég þekki, en vill illa." ? Af hverju er ekki stundum settur sá fyrirvari á skemmtilegt fólk, að það vilji illa, þótt það sé skemmtilegt?

Osama bin Laden er hryðjuverkamaður og hefur drepið marga en hann vill vel og það er nú kannski það sem skiptir mestu máli. Þið verðið að setja ykkur í hans spor. Hann átti kannski erfiða æsku og geðveika foreldra en hann gerir sitt besta.

Skiptir það máli að glæpamenn, öfuguggar og hálfvitar vilji vel? Hver vill ekki vel? Ætti kannski að hætta að refsa glæpamönnum á þeim forsendum að þeir vilji nú vel þrátt fyrir allt?

fimmtudagur, 17. mars 2005

Nágrannafýla

Sem ég sat hér í makindum mínum gaus upp Nágrannafýla og fyllti vit mín svo ég fylltist viðbjóði. Helvítis fjölbýlishús. Mér tókst að koma honum í skilning um að ærandi 80's tónlist væri ekki vinsæl eftir miðnætti í miðri viku en þetta er verra með skítafýluna. Ætti ég að kalla á meindýraeyði?

Um daginn kom kaffi í poka í pósti og með fylgdi spjald sem á stóð Bjóddu nágranna þínum í kaffi og spjall. Það kemur ekki til greina. Miðað við það sem ég hef heyrt þykir 90% fólks nágrannar sínir vera hálfvitar. Man að vísu eftir undantekningu sem sannar regluna en það var í friðsælli götu í Kópavogi. Þar voru allir við götuna vinir og heilsuðust og spjölluðu kumpánlega og vissu jafnvel um ferðir hvers annars. Hélt að það væri bara í væmnum bíómyndum.

Það væri mitt síðasta verk að bjóða nágrannanum í kaffi. En glaður héldi ég í stríð við hann með eldhúsáhöld og garðverkfæri að vopni (réttu vopnin til að ráðast á nágranna).

Nýja lagið með Queens Of the Stone Age, Little Sister er konfekt.

miðvikudagur, 16. mars 2005

Þessi prentkvóti sem okkur er skaffaður í skólanum er bjánalegur. Nú hef ég t.d. ekki prentað mikið í skólanum og á 3.510 kr. eftir af prentkvóta, sem samsvarar 351 prentuðu blaði. Ef ég nýti þetta ekki fæ ég ekki afganginn greiddan í peningum né heldur færist hann yfir á næsta skólaár, hann fyrnist. Kerfið býður upp á rugl og þá verður rugl. Á þeim mánuði sem eftir er af skólunum mun ég klára helvítis kvótann og prenta bara eitthvað, t.d. get ég prentað fullt af ræðum af althingi.is og búið síðan til skutlur og pappírsbáta og pappírshatta úr blöðunum prentuðu.

þriðjudagur, 15. mars 2005

Æðislegir brandarakarlar í umferðinni

Alltaf gaman að lenda í því þegar farið er út að keyra að einhver svínar á manni gróflega og veifar síðan brosandi, svona eins og maður hafi verið ofsalega kurteis að hleypa honum.

Stúdentspróf

Var að fatta að ég fer í stúdentspróf í efnafræði núna í vor, tek þá fjögur stúdentspróf í vor. Er nú þegar búinn með tvö, fékk 5,0 í öðru og 8,0 í hinu ef ég man rétt. Það gerir meðaleinkunn upp á 6,5 það sem af er sem er óttalega slappt. Verð að læra eins og hundur fyrir þessi fjögur.

sunnudagur, 13. mars 2005

Ég og Idol

Það er ekki leiðinlegt að setjast við kassann á föstudagkveldi og stilla inn á Idolið með kók í annarri og Maarud snakk í poka og nýsoðinn þorsk í hinni. Taka hljóðið af sjónvarpinu og horfa upp í loftið.

Undanúrslit: MR - FB

Veit að margir eru ósammála en mér fannst þetta ein leiðinlegasta MORFís-keppni sem ég hef séð ef ekki sú leiðinlegasta. Fyrri umferðin var alveg skelfileg. Þetta er rökræðukeppni og vissulega komu rök. Menn reyndu líka við grínið, misjafnlega tókst til. Að öðrum ólöstuðum fannst mér Gunni í MR með skemmtilegustu ræðurnar, reyndar aðeins slappari í seinni umferð. Einn FB-ingurinn hljómaði eins og hann væri að flytja ræður á Alþingi, nánast alveg grínlausar. Það er ekki eitthvað sem ég nenni að hlusta á í svona keppni.

Mér finnst ræður þar sem menn bregða sér í búninga og slíkt oftast lélegar. Braga (FB) tókst þó sæmilega til með sína Göbbels-ræðu. Haraldur var betri í síðari umferð en þeirri fyrri en hann var dæmdur ræðumaður kvöldsins. Í fyrri fannst mér hann vera að reyna við stíl sem hentaði honum ekki (skammartóninn). Svo í seinni tók hann sinn venjulega stíl og það var miklu betra. Bragi var skástur FB-inga, hinir tveir voru leiðinlegir ræðumenn. Í seinni ræðu Jóns Eðvalds varpaði hann fram spurningu sem hann lagði mikla áherslu á að síðasti FB-ingurinn svaraði. Ég fiskaði eftir því hvort svarið kæmi og það kom ekki, sem hefði átt að draga hann niður. Lokaatriðið í seinni ræðu Jóns Eðvalds var feitur mínus. Virkaði a.m.k. mjög illa á mig (kórsöngur þar sem endurtekið var "notum smokkinn"). En eins og oft er sagt er auðveldara að dæma en að keppa.

FB vann með slatta mun. Það voru ekki ósanngjörn úrslit en ekkert sanngjörn heldur. Hefði getað lent hvorum megin sem var að mínu mati.

Merkilegt að í 3.bekk tók ég alltaf nærri mér þegar MR tapaði ræðukeppnum og spurningakeppnum, nú er mér orðið drullusama. Veit ekki af hverju. Eins og liðsandinn hjá mér hafi minnkað. Tek miklu meira nærri mér slæmt gengi Liverpool.

föstudagur, 11. mars 2005

Ekki bílaapótek heldur bílaapótek

Var að komast að því að ég misskildi ákveðið mál sem hefur verið í blöðunum núna eftir að ég skoðaði nýjustu færslu Árna Long. Það er þetta með bílaapótekið. Ég sá fyrirsagnirnar fyrr í vikunni "BÍLAAPÓTEK Í FYRSTA SINN Á ÍSLANDI" og slíkt. Ég leit hins vegar ekkert á fréttirnar en hugsaði "Djöfulsins hálfvitar" um þá sem stæðu að því. Ég hélt að bílaapótekið svokallaða væri nýtt verkstæði þar sem gert væri við bíla og starfsmenn væru klæddir eins og starfsmenn í apótekum (í hvíta sloppa (jafnvel með grænar grímur fyrir andlitunum)) og tækju á móti bílum og gæfu þeim bílahóstamixtúrur og bílaparkódín (þ.e. smurolíu og nýja viftureim og slíkt). Þegar menn kæmu með bilaða bílana til þeirra segðu þeir "ooo, er bílinn lasinn, kannski á Jói frændi meðal handa honum" í upplífgandi tón. Ef einhver kæmi með beyglaðan bíl: "ooo, meiddi bíllinn sig, Jói frændi skal kyssa á báttið og laga hann". Síðan mundi hann rétta beygluna og sprauta bílinn þar sem beyglan var.

Þetta er ekki lygi. Mér tókst að misskilja þetta svona fjári illa. Það voru þá ekki þeir sem voru djöfulsins hálfvitar, heldur ég.

afgreiða lyf í gegnum bílalúgur er samt heimskulegt, en ekki jafnheimskulegt og minn misskilningur. Það væri alveg gallsúrt ef einhverjum dytti í hug að opna bílaapótek í þeim skilningi sem ég lagði í orðið.

Handrukkunin bar árangur

Hann borgaði víst skuld sína í Hallanum í dag. Það má því segja að handrukkunin hafi borið árangur.

fimmtudagur, 10. mars 2005

Gítar

Var að fá í hendurnar gítar. Kann ekkert á gítar. Stefni á að verða sjálfmenntaður og að verða fyrsti gítarleikarinn sem notar hvorki gítargrip né nótur, bara innblástur og grunnnóturnar sex. Gæti slegið í gegn, gæti orðið flopp, 50/50.

Kannski er betra að ég læri á þetta svo þær gömlu á hæðinni fyrir neðan komi ekki og bíti mig í hnakkann þegar þær verða orðnar vitlausar á samhengislausu glamrinu.

En þær eru pottþétt hálfheyrnarlausar svo ég ætla að halda áfram.

miðvikudagur, 9. mars 2005

Áfram í aðalkeppninni

Liverpool eru neðan við Man. Utd. í deildinni en ólíkt þeim eru Liverpool komnir áfram í aðalkeppninni, Meistaradeildinni. Meistaradeildin verður tekin í nefið núna.

Luis Garcia: "Við getum unnið meistaradeildina". Hann veit það.

Dollarinn

70.000 krónurnar sem fóru í dollarakaup fyrir jól voru feitur biti í hundskjaft. En ég ætla samt ekki að hlaupa til og selja. Krónan hlýtur að fara að falla og mæli ég með því að menn sem ákvarða gengið hætti að drekka og dópa. Rammfalskt, þetta djöfulsins gengi.

Ef ég ætti þessar 70.000 krónur í lausafé núna gæti ég keypt 70.000 lítra af mjólk. Erfitt að sjá markaðinn fyrir.

Stælar

Hann er ekki enn búinn að borga. Kom víst í Hallann með skottið á milli lappanna seinna um daginn í fyrradag og vældi yfir því að Magga hefði komið heim til hans með menn með sér að rukka en borgaði ekki skuldina. Ég á ekki orð. Þetta er eitt af því versta í fari fólks, að lofa upp í ermina á sér. Ekki bara einu sinni heldur margoft. Þeir sem ekki eru borgunarmenn eiga ekki að taka lán.

mánudagur, 7. mars 2005

Handrukkun í hádeginu

Þegar ég og Jósep komum inn í Hallann í hádegishlénu sagði Magga við okkur: "Strákar, komiði með mér hérna upp á Laufásveg.". Við hlýddum og eltum hana út úr sjoppunni. Magga leiddi fylkinguna og skrefinu á eftir komum ég og Jósi. Ferðinni var heitið til manns sem skuldaði pening vegna kaupa í sjoppunni. Hann hafði lofað að borga hvað eftir annað en alltaf svikist um. Við slíkt verður ekki unað. Eftir að hafa gengið spölkorn komum við að húsinu. Magga leiddi sem fyrr og hringdi dyrabjöllunni.
Maður svaraði í dyrasímann: "Halló."
Magga (skipandi og ógnvekjandi röddu): "Helgi, viltu opna."
Maðurinn (örlítið skelkaður): "Hver er þetta?"
Magga: "Þetta er Magga hérna úr Hallanum.... með menn með sér."
Maðurinn (ögn meira skelkaður): "Allt í lagi, ég kem niður."

Maðurinn kom til dyra og Magga tjáði honum skýrt og skorinort að hann skuldaði pening og skyldi borga og það á stundinni. Maðurinn lofaði að hann skyldi stökkva niður í hraðbanka strax og koma með fjármunina að vörmu spori í Hallann.

Lokaorð Möggu við manninn voru einnig sögð ógnandi röddu: "Þú skalt standa við það í þetta skiptið!". Svo á ég eftir að frétta hvort hann stóð við stóru orðin. Annars verður farin önnur ferð og alvarlegri aðgerðum beitt.

Magga tók okkur tvo með vegna júdókunnáttu Jóseps og ég er náttúrulega þekktur fyrir að skalla menn sem mér líkar ekki við.

Þetta var frábær ferð og hlógum við öll að þessu á leiðinni til baka.

laugardagur, 5. mars 2005

Kvikmyndaspurningar

Í hvaða mynd voru þessi ómetanlegu orð sögð: "Ég heiti ekki Jessi, ég heiti Jesús." ?

Í hvaða mynd var sungið (ísl. talsetning):
"Nú á ég fullt af úrvarls kartöflum dirrirrídei, bestar eru soðnar potti í bomm bomm bomm, rauðar , gular, sumar á stærð við haus." ?

föstudagur, 4. mars 2005

Við síðasta pistil má bæta að pistlar Sigmundar Ernis Rúnarssonar í Fréttablaðinu á sunnudögum undir heitinu Tíðarandinn eru bestu blaðamannspistlarnir. Mjög vel skrifaðir, aldrei hef ég séð lélegan pistil hjá honum. Þeir sem vilja lesa góða pistla í blöðunum ættu að lesa þetta. Þeir sem vilja lesa lélega pistla ættu að tékka á Þráni Bertelssyni í Bakþönkum.

Bakþankar Jóns Gnarr

Álit mitt á Jóni Gnarr hefur farið minnkandi vegna sífelldra kristilegra skrifa hans á Bakþönkum Fréttablaðsins. Það er sjaldgæft að hann komist í gegnum heila bakþanka án þess að blanda Guði eða Biblíunni inn í. Skemmtileg kenning Önundar Páls Ragnarssonar á Djöflaeyjunni um að þetta sé bara stórt grín hjá Jóni svipað og Andy Kaufman var þekktur fyrir. Ef svo er finnst mér það slappasta grín Jóns hingað til. Bakþankana mætti jafnvel túlka sem grín að trúðastöðinni Omega og auðvitað grín að ömurlegum bakþankaskrifum flestra hinna bakþankaskrifaranna. Kannski eru flestir bakþankaskrifarar að gera grín að lélegu. Það má víkka þessa kenningu út í það óendanlega.

Einu sinni horfði ég á heilan þátt af Fólk með Sirrý og hvarflaði þá að mér að það væri grínþáttur. Sirrý væri bara að gera grín að svona lélegu sjónvarpsefni og þá hló ég að henni. Þetta er orðið algengt að gera grín að lélegu með lélegu sbr. The Office. Þeim sem finnst ég skrifa lélega texta ættu að ímynda sér þá sem grín að lélegum skrifum sem finna má í blöðum og bókum og á neti. Allt eitt stórt grín.

fimmtudagur, 3. mars 2005

Fokk samkeppni

Herferð Krónunnar síðustu daga hefur varla farið fram hjá nokkrum manni. "Virk samkeppni!" "Lækkað vöruverð!" og fleira eru slagorðin sem notuð eru. Verðstríð er hafið milli Bónuss og Krónunnar.

Stundum er ég sendur út í búð að kaupa mat. Í gær háttaði svo til. Ég fór rétt fyrir kvöldmatarleytið vegna þess að þá er oftast rólegt í búðunum (hafði reyndar líka reynt að fara um fimm en þá var ekki stæði í kílómetersradíus í kringum búðina). Ég fór í Krónuna hér vestur í bæ eins og venjan er síðan við fluttum hingað. Það var ekki rólegt í búðinni. Það var snarvitlaust að gera og kerlingar með kerrur bandóðar. Það var eins og þær væru komnar í klessubílana í tívolí, slíkur var atgangurinn með kerrurnar. Ég sá eina kerru sem var ekki í notkun í búðinni og sótti hana í rólegheitum. Eftir smástund kom kerling og ætlaði að rífa hana af mér en ég hafnaði því. Slegist var um síðasta brauðið á 69 kr. og pitsur á 99 kr. voru hrifsaðar. Sparkað var í hnakka og hár reytt. Ástandið á búðinni minnti á hús eftir villt þriggja daga partý. Nokkrir brauðpokar voru komnir í klósettpappírshilluna og mjólkukælirinn var eins og eftir góða dýnamítsprengingu, allt á rúi og stúi.

Svo þurfti ég að bíða í röð við kassann. Mér finnst leiðinlegt að bíða í röð við kassa og er ekki vanur að þurfa það í þessari búð. Þetta var ömurleg búðarferð.

Ég vil sjá frétt í blaðinu á morgun með fyrirsögninni: "Kristinn Björnsson ráðinn forstjóri Krónunnar". Svo vil ég sjá nýja herferð með slagorðunum: "Fokk samkeppni!" "Hækkað vöruverð!" "Virkt samráð!". Svo yrði mynd með fréttinni í blaðinu af Kristni bensínglæponi og Jóni Ásgeiri í Bónus að handsala samning um öflugt og virkt samráð á matvælamarkaði sem og hækkað vöruverð.

Þá get ég farið að versla aftur í Krónunni í friði frá hamaganginum.

miðvikudagur, 2. mars 2005

Morð og mök

Í verklegri líffræði áttum við að horfa á mynd. Líffræðikennarinn var spurður hvort myndin væri góð áður en hún hófst og svaraði: "Jah, það eru bæði morð og mök í henni, þannig að hún hlýtur að vera góð"

Myndin fjallaði um geitunga. Í henni voru bæði morð og mök og ástir og átök. Ekki laug kennarinn.

þriðjudagur, 1. mars 2005