mánudagur, 7. mars 2005

Handrukkun í hádeginu

Þegar ég og Jósep komum inn í Hallann í hádegishlénu sagði Magga við okkur: "Strákar, komiði með mér hérna upp á Laufásveg.". Við hlýddum og eltum hana út úr sjoppunni. Magga leiddi fylkinguna og skrefinu á eftir komum ég og Jósi. Ferðinni var heitið til manns sem skuldaði pening vegna kaupa í sjoppunni. Hann hafði lofað að borga hvað eftir annað en alltaf svikist um. Við slíkt verður ekki unað. Eftir að hafa gengið spölkorn komum við að húsinu. Magga leiddi sem fyrr og hringdi dyrabjöllunni.
Maður svaraði í dyrasímann: "Halló."
Magga (skipandi og ógnvekjandi röddu): "Helgi, viltu opna."
Maðurinn (örlítið skelkaður): "Hver er þetta?"
Magga: "Þetta er Magga hérna úr Hallanum.... með menn með sér."
Maðurinn (ögn meira skelkaður): "Allt í lagi, ég kem niður."

Maðurinn kom til dyra og Magga tjáði honum skýrt og skorinort að hann skuldaði pening og skyldi borga og það á stundinni. Maðurinn lofaði að hann skyldi stökkva niður í hraðbanka strax og koma með fjármunina að vörmu spori í Hallann.

Lokaorð Möggu við manninn voru einnig sögð ógnandi röddu: "Þú skalt standa við það í þetta skiptið!". Svo á ég eftir að frétta hvort hann stóð við stóru orðin. Annars verður farin önnur ferð og alvarlegri aðgerðum beitt.

Magga tók okkur tvo með vegna júdókunnáttu Jóseps og ég er náttúrulega þekktur fyrir að skalla menn sem mér líkar ekki við.

Þetta var frábær ferð og hlógum við öll að þessu á leiðinni til baka.