fimmtudagur, 3. mars 2005

Fokk samkeppni

Herferð Krónunnar síðustu daga hefur varla farið fram hjá nokkrum manni. "Virk samkeppni!" "Lækkað vöruverð!" og fleira eru slagorðin sem notuð eru. Verðstríð er hafið milli Bónuss og Krónunnar.

Stundum er ég sendur út í búð að kaupa mat. Í gær háttaði svo til. Ég fór rétt fyrir kvöldmatarleytið vegna þess að þá er oftast rólegt í búðunum (hafði reyndar líka reynt að fara um fimm en þá var ekki stæði í kílómetersradíus í kringum búðina). Ég fór í Krónuna hér vestur í bæ eins og venjan er síðan við fluttum hingað. Það var ekki rólegt í búðinni. Það var snarvitlaust að gera og kerlingar með kerrur bandóðar. Það var eins og þær væru komnar í klessubílana í tívolí, slíkur var atgangurinn með kerrurnar. Ég sá eina kerru sem var ekki í notkun í búðinni og sótti hana í rólegheitum. Eftir smástund kom kerling og ætlaði að rífa hana af mér en ég hafnaði því. Slegist var um síðasta brauðið á 69 kr. og pitsur á 99 kr. voru hrifsaðar. Sparkað var í hnakka og hár reytt. Ástandið á búðinni minnti á hús eftir villt þriggja daga partý. Nokkrir brauðpokar voru komnir í klósettpappírshilluna og mjólkukælirinn var eins og eftir góða dýnamítsprengingu, allt á rúi og stúi.

Svo þurfti ég að bíða í röð við kassann. Mér finnst leiðinlegt að bíða í röð við kassa og er ekki vanur að þurfa það í þessari búð. Þetta var ömurleg búðarferð.

Ég vil sjá frétt í blaðinu á morgun með fyrirsögninni: "Kristinn Björnsson ráðinn forstjóri Krónunnar". Svo vil ég sjá nýja herferð með slagorðunum: "Fokk samkeppni!" "Hækkað vöruverð!" "Virkt samráð!". Svo yrði mynd með fréttinni í blaðinu af Kristni bensínglæponi og Jóni Ásgeiri í Bónus að handsala samning um öflugt og virkt samráð á matvælamarkaði sem og hækkað vöruverð.

Þá get ég farið að versla aftur í Krónunni í friði frá hamaganginum.