mánudagur, 27. júní 2005

Smánarblettur á fjölmiðlaflórunni

Hið nýja slúðurblað, Hér og nú, er smánarblettur á fjölmiðlaflóru landsins. Umfjöllun þeirra um mál Bubba Morteins er einstaklega siðlaus og ósmekkleg. Um daginn stóð á forsíðu blaðsins í með risaletri: "BUBBI FALLINN!". Héldu þá margir að Bubbi væri byrjaður í eiturlyfjaneyslu á nýjan leik. Svo var ekki, heldur snerist málið um að Bubbi væri farinn að reykja aftur. Hið fyrrnefnda var sterklega gefið í skyn án þess að vera sagt berum orðum. Eiríkur Jónsson, starfsmaður blaðsins, segir að öll umfjöllun um málið hafi verið sönn og það geri fréttamenn blaðsins að blaðamönnum og að ef eitthvað væri ósatt væru þeir skíthælar.

Ekki legg ég mikla trú á blað sem slær upp slíkri fyrirsögn og ræðst jafnhart fram gegn fólki sem gengur í gegnum erfiðan skilnað. Munu blaðamenn hafa hringt í málsaðila daginn út og daginn inn með ágengar spurningar. Umfjöllunin þjónar þeim tilgangi að selja blaðið. Því miður virðist ekkert heilagt þegar kemur að því. Besta leiðin til að koma í veg fyrir frekara siðleysi blaðamannanna er að hundsa blaðið.