fimmtudagur, 30. júní 2005

Sveitin 17. júní

Helgina 17.-19. júní fórum ég, Nína, mamma og Arnar frændi norður í Lón og hittum afa, Einar, Steinar, Guggu og Ásdísi litlu. Einar og Gugga réðu mig, Nínu, Steinar og Arnar í vinnu við að græða landið. Gróðursettum við frændsystkin hundruð greni- og lerkiplantna í landi Lóns. Norðurlandsskógar létu Einar og Guggu hafa plönturnar og peninga fyrir hverja gróðursetta plöntu. Okkar kjör voru 6 kr. á hverja plöntu, ég fékk 9 kr. á hverja vegna þess að ég lét áburð fylgja með. Steinar dreifði áburði á plöntur Nínu og Arnars og fékk 8 kr. á hverjar tvær plöntur og fyrir verkstjórn. Ég eyddi því þjóðhátíðardeginum og deginum eftir í að græða landið. Upp úr krafsinu hafði ég 7560 kr. og útborgað strax. Kom það sér afar vel þótt fljótt hafi verið að fara. Í dag kom útborgun frá Kirkjugörðunum og var hún nokkuð hærri enda mun lengri vinnutími. Ég er mjög hrifinn af launum á hvert gróðursett tré. Það er vinnuhvetjandi kerfi og mætti taka upp þess háttar kerfi víðar.

Ég reikna með að fara í berjamó með krakkana þarna í stóran og fallegan skóg þegar ég verð fertugur. Á myndinni má sjá okkur systkinin með réttu græjurnar.