föstudagur, 3. júní 2005

Boðlegt?

Þegar slegið er með sláttuorfi er að mörgu að huga. Í fyrsta lagi þarf að hafa sterkan sláttuvír. Nú er mér kunnugt um þrjár tegundir víra í orfabransanum. Sá appelsínuguli er algengastur og virðist hafa markaðsráðandi stöðu. Svo eru það sá skítagræni og sá guli. Guli er örþunnur og bítur ekki á blautan skít. Grasið bítur hins vegar á honum og hann splundrast af minnsta tilefni. Í dag prófaði ég í fyrsta sinn þennan skítagræna, hann er þykkur og sterkbyggður og maður skyldi ætla að slíkur vír entist betur en hinir. En svo er ekki, hann er svosum betri en guli þunni en alveg jafn fljótur að eyðast. Þar að auki ber að nefna að hann er leiðinlegur í notkun og lætur illa að stjórn þegar hann er festur í.

Niðurstaða: Appelsínuguli er bestur.

Í gær biluðu þrjú orf af þremur mögulegum á vinnustaðnum. Það kalla ég ekki boðlegt. Mótorinn brotnaði af stönginni á einu um leið og það var ræst. Fékk hann sjálfstæðan vilja og snerist sem óður væri. Það var heppni að drepa tókst á helvítinu í tæka tíð því enginn veit hvert mótorinn hefði getað ætt annars. Á öðru orfi bráðnaði gat á bensíntankinn. Það þriðja ofhitnaði og tankurinn lak. Þetta segir bara það að við værum betur sett með gamaldags orf og ljá heldur en þessi hávaðatól sem eru síbilandi.