sunnudagur, 26. júní 2005

Pönnukökur og Kim Larsen

Nú er ég að fara að baka pönnukökur. Smellti plötu með Kim Larsen á fóninn til að baka við. Er það ekki einmitt það sem maður á að gera á sunnudegi (baka með Kim Larsen í botni og syngja með og brenna draslið við). Það er víst kökudagur á morgun í vinnunni og ef ég mæti ekki með heimabakstur verð ég kýldur.

Í gær var bjór sötraður hér og horft á Litlu lirfuna ljótu á frönsku og ensku ásamt einni Fóstbræðraspólu í góðra vina hópi. Litla lirfan ljóta á frönsku er stórkostleg. Egils Premium er mjög góður bjór.

Heyrði þátt Hemma Gunn í útvarpinu um daginn. Hemmi er meistari eins og flestum ætti að vera kunnugt. Hann fékk til sín misgóða gesti, m.a. Á móti sól. Sú hljómsveit söng nokkur lög og alveg var rosalegt hvað söngvarinn söng falskt og illa. Hemmi sagði eftir eitt lagið þeirra: "Það verður að taka viljann fyrir verkið" og hló tröllslega enda var það hörmulega lélegur flutningur. Svo sagði hann eftir að hljómsveitin var farin: "Jæja, þá eru drengirnir í Á móti sól loksins búnir að hypja sig héðan út". Hemmi er frábær og þeir sem segja annað ættu að hafa vit á að þegja. Hér eru nokkrir af þeim mönnum sem bannað er að gagnrýna:
Hemmi Gunn
Megas
Kim Larsen
Raggi Bjarna
Laddi.