þriðjudagur, 21. júní 2005

Riddarar réttlætisins

Líkt og svo margir fórum við út á land um liðna helgi. Nokkrum mínútum áður en við komum á Blönduós komum við inn á kafla með nýlögðu slitlagi. Þar tókum við fram úr bíl sem fór heldur hægt. Þetta átti eftir að koma okkur í koll.

Við fórum inn á bensínplan á Blönduósi. Þar kom bíll og lagði upp að hlið okkar bíls og vildi segja eitthvað. Hann beindi orðum til mömmu sem sat í ökumannssæti á þessum hluta leiðarinnar:
"Sástu ekki skiltið?"
Mamma: "Hvaða skilti?"
Maðurinn: "Skilti sem sýndi 50 km hámarkshraða"
Mamma: "Nei"
Maðurinn: "Nei, ég er nefnilega á lánsbíl og þið tókuð fram úr mér á nýlagða slitlaginu og mokuðuð grjóti yfir bílinn"
Mamma: "Já."
Maðurinn "Ég er að hugsa um að kalla til lögregluna."
Mamma: "Þá gerir þú það bara"
Maðurinn: "Þið passið kannski upp á þetta í framtíðinni"
Mamma: "Er þetta ekki orðinn ágætis pistill hjá þér?"
Maðurinn: "Já, það er voða leiðinlegt þegar fólk blabla..." meira heyrðist ekki því nú var hann að keyra á brott aftur. Hann gjóaði augunum ógnandi á númeraplötu bílsins á meðan hann kom sér burt hægt og rólega. Síðan ók hann til baka. Hann hafði sem sagt lagt lykkju á leið sína til þess eins að koma vitinu fyrir sauðheimska ökumenn sem skeyta engu um lánsbíla eða hámarkshraða. Hvað gerir maður ekki til að koma vitinu fyrir fólk? Engar skemmdir var að sjá á lánsbílnum.

Fíflið hefur væntanlega þurft að aka yfir þessum hámarkshraða á nýlagða hlutanum til að ná okkur aftur. Nauðsyn brýtur lög. Ef ég hefði viljað berjast gegn ranglæti eins og þessi maður hefði ég þurft að elta ansi marga ökumenn, suma jafnvel á 130 km hraða.