mánudagur, 13. júní 2005

Gestaþraut

Þegar ég var lítill sýndu foreldrar mínir mér gestaþraut sem þeir áttu. Þrautin var skringilegur óreglulegur hlutur sem átti að raða saman í rétta röð. Ég spurði hvers vegna þetta héti gestaþraut og var svarað: "Jú, sjáðu til, það er vegna þess að þetta er þraut sem við látum gesti leysa". Þetta þótti mér mjög sniðugt. Þegar gestir koma í heimsókn og maður veit ekkert hvað maður á að gera við þá, dregur maður gestaþraut fram úr erminni sem þeir geta glímt við. Enginn gestur fær að fara heim fyrr en hann hefur leyst gestaþraut heimilisins.

Einn daginn fengu pabbi og mamma gesti. Þá stökk ég fram með gestaþrautina og spurði "Eiga gestirnir ekki að leysa gestaþrautina". "Leiktu þér með þetta frammi" og ég fór vonsvikinn fram með gestaþrautina góðu. Fljótlega áttaði ég mig á því að gestir eru aldrei látnir leysa gestaþrautir. Nafnið er bara gert til þess að rugla litla krakka sem eru þó ruglaðir fyrir.

Eins og alltaf er ein undantekning sem sannar regluna. Á mörgum heimilum eru klósettlæsingar stirðar og skrýtnar og heimilisfólk er eina fólkið sem kann á þær. Þegar gestir bregða sér rétt sem snöggvast á snyrtinguna getur farið svo að þeir megi dúsa á klósettinu í nokkra klukkutíma. Stirðar klósettlæsingar eru hin fullkomna gestaþraut. Sérstaklega vegna þess að gesturinn er ekki látinn vita áður en hann fer á klósettið og læsir. Hann gerir þarfir sínar en þegar hann er búinn og ætlar út aftur þá FOKK!: "Halló, ég er læstur inni". Heimilisfólkið heyrir í gestinum og stillir sér upp fyrir utan dyrnar og segir: "Þú verður að glíma svolítið við þetta...þetta er sko gestaþraut".
Gestur:"Látiði ekki svona, segið mér hvernig ég á að opna"
Heimilisfólk: "Reyndu nú að láta þér detta eitthvað sniðugt í hug"
Gestur: "Hvað er þetta?! Hjálpið mér út!"
Heimilisfólk: "Það hafa allir gestir fattað þetta hingað til" o.s.frv. þar til gesturinn er orðinn sjóðandi vitlaus og búinn að ákveða að koma aldrei í heimsókn aftur á þetta heimili.