föstudagur, 20. október 2006

Mótmælendur hafa enga skoðun

Stórkostlegur maður birtist í Kastljósi á miðvikudaginn. Hann heitir Kristján Loftsson og er hvalveiðasinni og stórútgerðarmaður. Hann fór gjörsamlega á kostum. Það besta sem hann sagði var um mótmælendur. Þegar Sigmar spurði hann hvort mótmælendur hefðu ekki rétt á að tjá sína skoðun eins og aðrir svaraði Kristján:

"Þeir hafa enga skoðun á þessu...Ég get sagt þér sögu hérna, ég var einu sinni á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Glasgow og þar voru þeir með svona mótmælaspjöld fyrir utan, í tvo daga og svo labbaði ég þarna út með öðrum manni og við fórum svona aðeins inn í hópinn þarna og ég talaði við eina stúlku og spurði hana hvað hún segði um hvalinn og hún segir: "Já, nei, ég kom hérna bara af því að frænka mín á heima hérna í Glasgow og ég fékk frían miða með lestinni hérna norður..."

Kristján sagðist einnig vorkenna talsmönnum ferðaþjónustunnar sem væru á móti hvalveiðum og notaði m.a. orðin: "Ferðaþjónustan, alveg merkilegt lið sem þar virðist starfa."

BAMM! BÚMM! FLUGELDASÝNING! Mótmælendur afgreiddir í einni svipan! Þetta jafngildir troðslu í körfuboltaleik, home-run í hafnarbolta, holu í höggi í golfi, þrennu í fótboltaleik og rothöggi í boxi! Inn á þing með kappann!

Annars mæli ég eindregið með viðtalinu í heild, þetta er gullmoli.