föstudagur, 6. október 2006

Staksteinar

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins (væntanlega Styrmir Gunnarsson) skrifaði um daginn um Keflavíkurgöngu herstöðvaandstæðinga fyrir mörgum árum:

  • Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska varnarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.

-
Já, þetta er rétt ef ég veit rétt. Svo:
  • Þeir gengu í þágu kommúnismans sem hrundi með Berlínarmúrnum
Jahá, ef menn gengu í mótmælaskyni við hersetu hér á landi, gengu þeir í þágu kommúnismans. Stórkostleg röksemdafærsla. Eða nei, ekki röksemdafærsla, fullyrðing - Stórkostleg fullyrðing. Nýjar upplýsingar!
  • Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
Daginn sem Keflavíkurgangan fór fram, hefur greinilega verið tveir fyrir einn tilboð fyrir mótmælendur: "Gangið gegn herstöðinni í Keflavík og þá er ganga til stuðnings við fjöldamorðingjann Stalín innifalin, tveir fyrir einn!".
  • Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrældóm.
Tilboðið gerist æ betra.
  • Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17.júní 1953.
Vá, ég vissi ekki að mótmælagöngur gætu haft svona svakalega yfirgripsmikinn tilgang. Reyndar virðast mótmælin gegn herstöðinni bara hafa verið brot af tilgangi göngunnar - aðallega hefur þetta verið stuðningsganga til stuðnings: Stalín, fjöldamorðum, þrælahaldi og kommúnisma.

Er þetta leið Morgunblaðsins til að ná til baka öllum þeim lesendum sem hafa snúið sér annað?